Erlent

Hundruð flóttamanna týndir eftir brunann í Dunkirk

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Meðal þeirra sem eru týndir eru tugir barna.
Meðal þeirra sem eru týndir eru tugir barna. Vísir/EPA
Hundruð flóttamanna eru týndir eftir að eldur kom upp í flóttamannabúðum í frönsku borginni Dunkirk í gær. Guardian greinir frá.

Umræddar búðir voru einu opinberu flóttamannabúðirnar í Frakklandi en 1500 manns höfðu aðsetur í þeim og er búið að koma 900 manns fyrir í tímabundnum vistarverum. 600 manns eru hins vegar týndir og ekki ljóst hvar þau eru niðurkomin, en í hópnum eru meðal annars börn, án forráðamanna.

Innanríkisráðherra Frakklands, Matthias Fekl, heimsótti rústir flóttamannabúðanna í dag og lét hann hafa eftir sér að búðirnar yrðu ekki endurreistar. Þess í stað yrði þeim 1500 flóttamönnum sem þar hefðu búið, fundið annað heimili.

Yfirvöld telja að kveikt hafi verið í búðunum, í kjölfar átaka á milli hópa kúrdískra og afganskra flóttamanna. Æ fleira fólk átti sér samastað í umræddum búðum, eftir að frönsk yfirvöld létu loka öðrum slíkum búðum í Calais og voru aðstæður í búðunum sagðar mjög bágar.

Fjöldi franskra hjálparsamtaka hafa harðlega gagnrýnt frönsk yfirvöld vegna brunans og aðstæðna flóttafólks í landinu og kallað eftir úrbótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×