Erlent

Fjögur bítast um franska forsetastólinn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hamon, Macron, Fillon, Melenchot og Le Pen bera höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur.
Hamon, Macron, Fillon, Melenchot og Le Pen bera höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur. vísir/epa
Frönsku forsetakosningarnar hefjast 23. apríl næstkomandi. Nýjustu kannanir benda til þess að kosningarnar verði spennandi en óvæntur frambjóðandi hefur bæst í hóp þeirra sem gætu hreppt hnossið.

Alls eru tólf í framboði en framan af virtist baráttan ætla að standa á milli Evrópuþingmannsins Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðarfylkingarinnar, og Repúblikanans Francois Fillon. Stuðningur við Fillon hefur hins vegar dalað frá því í upphafi árs en samtímis aukist við Emmanuel Macron. Macron býður sig fram fyrir afl sem kallast Á hreyfingu!

Benoit Hamon, frambjóðandi Sósíalista, hefur reynt hvað hann getur til að bjarga framboði sínu en hingað til hefur það ekki gengið sem skyldi. Fylgi hans dalar jafnt og þétt. Hamon er flokksbróðir sitjandi forseta, Francois Hollande, en ljóst er að eitthvað mikið þarf að gerast til að Hamon komist í stól forseta.

Öllum að óvörum hefur fylgi kommúnistans Jean-Luc Mel­enchon aukist mjög á síðustu dögum en hann hefur þótt standa sig vel í kappræðum hingað til.

Hneykslismál hafa einkennt kappið hingað til. Í upphafi árs hrapaði fylgi við Francois Fillon eftir að hann var sakaður um að hafa útvegað eiginkonu og börnum sínum laun úr opinberum sjóðum fyrir litla sem enga vinnu. Þá var Macron sakaður um að hafa haldið ítrekað fram hjá eiginkonu sinni.

Í nýjustu könnunum eru Le Pen og Macron hnífjöfn með tæplega fjórðungsstuðning. Melenchon er nú þriðji með átján prósent og Fillon prósenti á eftir honum. Fylgi Hamon er komið niður fyrir tíu prósent eftir að hafa verið rúmlega fimmtán prósent í upphafi febrúar.

Þrátt fyrir að Le Pen hafi undanfarið notið mests fylgis er talið ólíklegt að hún verði forseti. Hljóti enginn frambjóðandi meira en helming atkvæða í fyrri umferðinni er kosið að nýju milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Skoðanakannanir sýna að bæði Macron og Fillon myndu hafa nokkuð öruggan sigur í framlengingu. Hins vegar er óvíst hvað gæti gerst ef Melenchon yrði annar tveggja efstu.

Gamall refur



Jean-Luc Melenchon er 65 ára gamall og starfaði lengi í Sósíalistaflokknum en sagði skilið við hann árið 2008. Í kjölfarið stofnaði hann Vinstriflokkinn.

Meðal stefnumála hans er að lækka skattbyrði láglaunafólks og setja sérstakan skatt á ríkasta hálfa prósentið. Alls muni 90 prósent tekna þeirra renna til ríkisins. Að auki skal þak sett á laun stjórnenda fyrirtækja.

Þá er það skoðun hans að Don­ald Trump sé jafn slæmur og aðrir forsetar Bandaríkjanna hingað til. Þá telur hann Rússland náttúrulegan bandamann Frakka og að NATO sé óþarft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×