Erlent

Mannskæður stormur gekk yfir Bandaríkin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bærinn Canton í Texas-fylki í Bandaríkjunum, sem merktur er með rauðri stiku, er einna verst út leikinn eftir storminn í gær.
Bærinn Canton í Texas-fylki í Bandaríkjunum, sem merktur er með rauðri stiku, er einna verst út leikinn eftir storminn í gær. Google Maps
Að minnsta kosti sjö eru látnir eftir mikið ofsaveður í þremur fylkjum Bandaríkjanna á laugardagskvöld. Greint er frá þessu á vef fréttastofunnar CNN.

Fimm létust þegar að minnsta kosti þrír skýstrókar skullu á austurhluta Texas-fylkis. Stormurinn skildi eftir sig mikla eyðileggingu á laugardag en rúmlega fimmtíu eru særðir. Yfirvöld á svæðinu segja enn fremur að fjöldi látinna gæti aukist en björgunaraðgerðir standa nú sem hæst. Bærinn Canton austan við borgina Dallas var einna verst út leikinn.

Þá fannst lík sjötíu og tveggja ára konu í Missouri eftir að flóð báru bíl hennar á brott. Eiginmaður konunnar reyndi að koma henni til bjargar en án árangurs.

Önnur kona lést er tré féll á heimili hennar í bænum De Witt í Arkansas.

Óveðrið færist nú vestur á bóginn en yfir þrjátíu milljónir Bandaríkjamanna eru undir eftirliti vegna flóðahættu. Þá hefur einnig rignt ofsalega í fyrrnefndum fylkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×