Innlent

Klárar stúdentspróf með hjálp menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ung einstæð móðir, sem sótti um styrk í menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar, er nú að ljúka stúdentsprófi sem hún segir að henni hefði aldrei tekist væri það ekki fyrir sjóðinn. Það sé sjóðnum að þakka að hún sjái fram á bjarta framtíð fyrir sig og son sinn. Hún segir margar konur í sömu stöðu og hún var en umsóknum í sjóðinn hefur fjölgað.

Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur hefur það hlutverk að styrkja tekjulitlar konur til menntunar. Sjóðurinn var stofnaður árið 2012 og hefur á þeim tíma styrkt yfir 100 konur til að afla sér menntunar, konur sem að öðrum kosti hefðu ekki haft tækifæri til þess.

Harpa Marín Jónsdóttir er ein þeirra en hún er ung einstæð móðir. „Ég var ekki komin með neina meinntun þannig séð nema bara grunnskólamenntun. Ég fann alltaf að strax eftir að hann kom að það voru alltaf einhver takmörk. Það var tekjumark sem ég sá fyrir mér að geta ekki farið yfir. Ég gat ekki farið í vaktavinnu því það gat engin verið með barnið mitt á meðan,“ segir Harpa Marín.

Harpa sá svo viðtal við unga konu í Fréttablaðinu sem hafði snúið lífi sínu við eftir að hafa fengið styrk úr sjóðnum og þannig tækifæri til að fara í nám. Harpa ákvað því að sækja um styrk sem hún fékk og núna ári síðar er hún að klára stúdentspróf af frumgreinadeild í Háskólanum í Reykjavík. „Ef ég hefði kannski bara farið menntaskólaleiðina hefði þetta tekið rosalega langan tíma og ég hefði þurft að búa við rosalega mikla fátækt í langan tíma. Það er ekki hvetjandi fyrir einn eða neinn. Maður gerir það samt sem áður og lætur reyna á sig og gerir allt fyrir börnin sín en síðan brotnar maður niður á einhverjum tíma og flosnar kannski upp úr námi,“ segir Harpa Marín.

Hún segir að það séu margar ungar konur í sömu stöðu og hún var. „Og vera komin á þann stað sem þú sérð ekki fram á neitt betra í lífinu. Hvorki fyrir þig né barnið“

Harpa stefnir á að hefja nám í rekstrarverkfræði í haust.  Menntunarsjóðinn reka fjórar konur í sjálfboðaliðastarfi og fer allt fé sem safnast í hann beint í styrki. Umsóknum í sjóðinn hefur fjölgað á síðustu árum en síðustu tvö ár sóttu tæplega 40 konur um styrk. Stjórn sjóðsins verður með fjáröflun næstu helgi og hvetur Harpa einstaklinga og fyrirtæki sem hafa tök á að hjálpa til við að afla fjármuna í sjóðinn.

Hún segir að hún væri aldrei á þeim stað sem hún er í dag ef það væri ekki fyrir sjóðinn. „Ég held að þessi sjóður hafi verið upphafið af minni framtíð því ég get ekki sagt að það sem ég var að gera áður fyrr hafi verið einhver framtíð. Þessi sjóður kom mér í það að byrja á einhverju sem á eftir að gera gott í lífinu mínu,“ segir Harpa Marín Jónsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×