Innlent

Nám í tölvuleikjagerð fær ekki hljómgrunn

Sæunn Gísladóttir skrifar
Tölvuleikjamarkaðurinn veltir stjarnfræðilegum upphæðum.
Tölvuleikjamarkaðurinn veltir stjarnfræðilegum upphæðum. vísir/afp
Ljóst er að nám á tölvuleikjabraut hjá Keili mun ekki hefjast næstkomandi haust líkt og stefnt hefur verið að undanfarna mánuði. Um fjörutíu nemendur höfðu lýst yfir áhuga að hefja námið í haust en menntamálaráðuneytið hefur ekki samþykkt námið.

„Þetta er svo undarlegt. Við erum búin að vera að undirbúa þetta í þrjú ár, fyrst var svar menntamálaráðuneytisins að við vorum ekki með leyfi til að bjóða upp á nám til stúdentspróf. Svo fengum við það leyfi fyrir einu og hálfu ári, þá var svarið að það væri ekki til fjármagn. Þá fórum við í vikunni á fund í ráðuneytinu og sögðumst vera búin að finna fjármagn úr okkar eigin fjármagnsleiðum, við ætluðum bara að færa til úr einum lið yfir í annan. En þá kom svarið frá ráðuneytinu að lögfræðingur teldi að það væri ekki hægt," segir Arnbjörn Ólafsson, markaðsstjóri Keilis.

„Kerfið er að segja nei á meðan atvinnulífið bíður eftir lausnum. Það var eins og væri sama hvað lausn við værum að finna, það er einhver kergja að sé bætt við þetta námsframboð."

Fréttablaðið greindi frá því í byrjun mars að Keilir væri að vinna að námsbrautarinnar og inntöku 60 nemenda á hana. Keilir hafði í samstarfi við CCP og aðra tölvuleikjaframleiðendur á Íslandi, ásamt Samtökum leikjaframleiðenda og alþjóðlegum skólum í tölvuleikjagerð, unnið að þriggja ára námi til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð.

Arnbjörn Ólafsson, markaðsstjóri Keilis.
Námið var meðal annars þróað til að bregðast við bæði þörfum atvinnulífsins og óskum fyrirtækja um að eiga aðgang að vel menntuðu fólki til starfa innan greinarinnar.

„Það er alltaf verið að segja að við þurfum að bregðast við ákalli atvinnulífsins en svo þegar skólar ætla að bregðast við þá stoppar þetta einhvers staðar og þetta er ekki í fyrsta skiptið. Það er erfitt þegar þú ert með atvinnulíf sem hreyfist rosalega hratt. Ef skólakerfið á ekki að geta aðlagað sig hratt að kröfum atvinnulífsins þá verða nemendur alltaf á eftir," segir Arnbjörn.

Hann segir að forsvarsmenn Keilis muni halda áfram að berjast fyrir náminu. „Við ætlum að halda áfram að berjast við að fá að bæta við námsflóruna sem er hérna."


Tengdar fréttir

Tölvuleikjagerð kennd á nýrri námsbraut

Keilir á Ásbrú vinnur að því að stofna nýja námsbraut í tölvuleikjagerð. Samþykkis menntamálaráðuneytisins er beðið og stendur ekki á neinu öðru. Áætlað að taka inn 60 nemendur í haust. Samstarf við erlenda háskóla í farvatni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×