Innlent

Borðaði 81 árs gamla sultu á afmælisdaginn

Snærós Sindradóttir skrifar
Jón Kristinsson sést hér bragða á sultunni góðu á afmælisdaginn sinn. Eins og sést er sultan merkt "Ribshlaup 1936“.
Jón Kristinsson sést hér bragða á sultunni góðu á afmælisdaginn sinn. Eins og sést er sultan merkt "Ribshlaup 1936“. Kris Kristinsson
Jón Kristinsson, arkitekt og uppfinningamaður, fékk heldur óvænta afmælisgjöf síðastliðinn sunnudag, þegar hann fann 81 árs gamla rifsberjasultu sem móðir hans hafði lagað sumarið 1936. Jón er frumkvöðull í sjálfbærri byggingarhönnun og hefur meðal annars staðið fyrir framleiðslu á andandi gluggum og lághitahúshitun.

„Ég held að þetta hljóti að vera úr berjum af runnunum í garðinum okkar, annaðhvort af Stýrimannastíg 7 eða Ránargötu 21,“ segir Jón. Endurnýjun stendur yfir á húsinu við Ránargötu sem varð til þess að sultukrukkan fannst í kjallara hússins. Í sömu geymslu fannst einnig niðursoðið kjöt frá 1944 sem Jón lagði sér þó ekki til munns.

„Sultan var alveg ljómandi,“ segir Jón. Á sunnudag neytti hann hennar eintómrar. „Bara með teskeið. Þegar maður er með svona gersemi þá er maður ekkert að borða hana með brauði heldur vill bara finna bragðið af berjasafa þess tíma.“

Á mánudagsmorgun hrærði Jón sultuna hins vegar út í skyr, áður en hann flaug til Hollands þar sem hann er búsettur. Jón var hvítvoðungur þegar sultan var löguð, fæddur 7. maí 1936. Móðir hans, Ásta Jónsdóttir, var húsmóðir með ýmislegt á prjónunum, þar á meðal bókband og handavinnu. Þá rak hún heimagistingu fyrir ferðamenn en fjölskyldan segir hana þar með hafa verið frumkvöðul í þeim viðskiptum sem í dag fara fram í gegnum Airbnb. Hún var 38 ára gömul þegar sultan var löguð.

Faðir Jóns var Kristinn Björnsson, yfirlæknir á sjúkrahúsi Hvíta bandsins við Skólavörðustíg. Jón segist ekki hafa haft neinar efasemdir um að bragða sultuna þrátt fyrir að hún hafi verið búin til fyrir rúmum átta áratugum. Hann segir að ef matvælin geymist í rúmt ár sé nokkuð ljóst að þau þoli lengri geymslutíma.

„Þegar ég fann ilminn af henni þá vissi ég að ég þurfti ekki að vera smeykur. Það var svo mikill sykur í kring að hún hafði alveg varðveist. Krukkunni var lokað með pappírsloki og kertavaxi dreypt yfir til að loftloka henni alveg. Þannig að sultan var alveg vernduð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×