Innlent

Fyrirtækjum muni fækka úti á landi

Sveinn Arnarsson skrifar
Elliði Vignisson.
Elliði Vignisson. Fréttablaðið/Óskar Friðriksson
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir fyrirhugaðar hækkanir virðisaukaskatts á ferðaþjónustu geta stórlaskað fyrirtæki í greininni sem muni mest bitna á fyrirtækjum á landsbyggðinni. Einyrkjar og lítil fyrirtæki muni líkast til ekki þola hækkunina og segir hann Sjálfstæðisflokkinn ekki fara eftir eigin samþykktum.

„Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á síðasta aðalfundi að verja greinina og ekki leggja íþyngjandi álögur á hana og skattleggja hana um of. Við erum sammála um að sú er ekki raunin nú í þessu samstarfi,“ segir Elliði.

Að endingu fækki fyrirtækjum og þau stækki sem er ekki ákjósanleg breyting á íslenskri ferðaþjónustu að mati Elliða og merkir sömu þróun og í sjávarútvegi.

„Ég verð að segja það að ég hef áhyggjur af stöðu ferðaþjónustufyrirtækja vegna hækkunar virðisaukaskatts. Nú á að reyna að ná sem mestu út úr greininni sem gæti haft þveröfug áhrif,“ segir Elliði. „Það sem er að gerast núna er nákvæmlega það sama og gerðist varðandi sjávar­útveginn. Þá átti að reyna að hækka álögur á greinina í heild með þeim afleiðingum að fyrirtækjum fækkaði á meðan þau sem eftir urðu stækkuðu og stækkuðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×