Erlent

Fimmtán ára drengur með loftriffil skotinn til bana af lögreglu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Borgin San Diego í Kaliforníu-fylki.
Borgin San Diego í Kaliforníu-fylki. Vísir/AFP
Lögregluþjónar í San Diego í Kaliforníu-fylki í Bandaríkjunum skutu fimmtán ára dreng til bana í gær, laugardag. Drengurinn er sagður hafa ógnað lögreglu með byssu sem síðar reyndist loftriffill. Þetta kemur fram í frétt Washington Post.

Lögregla var kölluð til eftir að ábending barst um drenginn þar sem hann stóð fyrir framan Torrey Pines gagnfræðaskólann í San Diego. Hann tók fram byssu, sem hann hafði í buxnastreng sínum, og beindi henni að lögregluþjónunum. Lögregla bað drenginn ítrekað um að leggja frá sér vopnið en án árangurs. Hún hóf því skothríð.

Í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum á svæðinu segir að mennirnir, sem voru tveir á vakt, hafi „óttast um öryggi sitt“ og að þeir hafi þess vegna „báðir skotið á drenginn og hæft hann fjölmörgum sinnum.“

Drengurinn var síðar úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.

Þá kemur einnig fram að símtalið til lögreglu hafi verið rakið og áætlað er að drengurinn hafi sjálfur hringt. Hann er því talinn hafa fengið lögreglu til að fremja sitt eigið sjálfsmorð.

Hér fyrir neðan má sjá tilkynningu lögreglunnar í San Diego um atvikið:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×