Erlent

„Stór skattaafsláttur fyrir menn eins og mig“

Kjartan Kjartansson skrifar
Auðjöfurinn Warren Buffett er einn þeirra sem hagnast á afnámi Obamacare.
Auðjöfurinn Warren Buffett er einn þeirra sem hagnast á afnámi Obamacare. Vísir/Getty
Milljarðarmæringurinn Warren Buffett segir afnám repúblikana á heilbrigðistryggingalögum Baracks Obama meiriháttar lán fyrir ofurríkt fólk eins og hann sjálfan.

„Þetta er stór skattaafsláttur fyrir menn eins og mig,“ hefur CNN eftir Buffett á hluthafafundi Berkshire Hathaway í gær. Buffett hefur verið gagnrýninn á hversu lítið auðugt fólk eins og hann sjálfur þurfi að greiða til samfélagsins í Bandaríkjunum.

Þar hélt Buffett því fram að kostnaður við heilbrigðisþjónustu séu mun stærri dragbítur á fyrirtækjum en skattar. Það komi jafnframt niður á bandaríska hagkerfinu.

Meirihluti Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykktu að afnema heilbrigðistryggingalög Obama í vikunni og samþykktu umdeild lög í stað þeirra. Þau hafa meðal annars verið gagnrýnd fyrir að svipta milljónir Bandaríkjamanna heilbrigðistryggingum.

Afnám laganna þýðir að skattahækkanir sem Obama lagði á tekjuhæstu Bandaríkjamennina til að fjármagna hluta heilbrigðistryggingakerfisins verða dregnar til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×