Erlent

Bandaríkjamaður handtekinn í Norður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Bandaríkjamenn saka stjórn hans um að handtaka fólk til að nota sem peð í valdatafli.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Bandaríkjamenn saka stjórn hans um að handtaka fólk til að nota sem peð í valdatafli. Vísir/EPA
Norður-kóresk yfirvöld handtóku bandarískan borgara í landinu í gær, að sögn ríkisfréttastofu landsins. Maðurinn er sakaður um aðgerðir gegn stjórnvöldum í Pyongyang.

CNN hefur eftir ríkisfréttastofunni að maðurinn heiti Kim Hak-song. Séu fréttirnar réttar sé Kim fjórði bandaríski borgarinnar sem sé í haldi í Norður-Kóreu.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að Kim hafi starfað í Vísinda- og tækniháskólanum í Pyongyang. Bandarísk stjórnvöld hafa áður sakað norður-kóresk stjórnvöld um að handtaka Bandaríkjamenn til að nota sem peð í valdatafli.

Mikil spenna hefur ríkt á milli bandarískra og norður-kóreskra stjórnvalda að undanförnu. Norður-Kóreumenn hafa gert eldflaugatilraunir og hótað að gera frekari kjarnorkutilraunir og á móti hefur tónn ríkisstjórnar Donalds Trump í garð landsins harðnað.

Norður-kóresk stjórnvöld sökuðu Suður-Kóreumenn og Bandaríkjamenn um að leggja á ráðin um að ráða Kim Jong-un af dögum á föstudag.


Tengdar fréttir

Bandaríkin og Kína ræða möguleg viðbrögð vegna Norður-Kóreu

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Donalds Trump, segir að yfirvöld í Kína og Bandaríkjunum séu sammála um að ástandið á Kóreuskaga geti ekki haldið áfram óbreytt. Hann segir löndin vera að ræða ýmsa möguleika um hvernig bregðast megi við eldflauga og kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×