Erlent

Satanískur minnisvarði settur upp í smábæ

Kjartan Kjartansson skrifar
Svona mun minnisvarði satanista um fallna hermenn líta út.
Svona mun minnisvarði satanista um fallna hermenn líta út. Teikning/Sataníska hofið
Smábær í Minnesota verður brátt þess heiðurs aðnjótandi að hýsa fyrsta sataníska minnisvarða Bandaríkjanna. Samtök satanista tilkynntu fyrir helgi að þau hefðu fengið leyfi bæjaryfirvalda til að reisa minnismerkið í garði sem heiðrar hermenn.

Minnismerkið er svartur teningur með fimmhyrndum stjörnum og hjálmi hermanns á hvolfi ofan á. Það verður sett upp í minningargarði um hermenn í bænum Belle Plaine innan tveggja mánaða samkvæmt frétt Washington Post.

Forsaga málsins er sú sett var upp stytta af hermanni krjúpandi fyrir framan kross í garðinum síðasta sumar. Íbúi í bænum kvartaði undan styttunni þar sem að trúartáknið stríddi gegn aðskilnaði ríkis og kirkju. Upphófust þá miklar deilur um hvaða stað trúartákn ættu sér á opinberum stöðum.

Í kjölfarið lýsti bærinn hluta garðsins almannarými þar sem nær hverjum sem er væri frjálst að heiðra hermenn bæjarsins með sínum hætti. Sataníska hofið hefur nú fengið leyfi til að setja upp minnisvarða þar.

Þrátt fyrir nafnið eru meðlimir Sataníska hofsins ekki djöfladýrkendur. Lucien Greaves, talsmaður hofsins, segir samtökin „óguðleg trúarsamtök“ sem helgi sig listum, tjáningarfrelsi og einstaklingshyggju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×