Erlent

Rýma hús vegna sprengna úr heimsstyrjöldinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Svæðið þar sem fimm sprengjur eru taldar liggja grafnar í Hannover.
Svæðið þar sem fimm sprengjur eru taldar liggja grafnar í Hannover. Vísir/Getty
Um 50.000 íbúum í þýsku borginni Hannover var skipað að yfirgefa heimili sín í morgun á meðan sprengjusérfræðingar vinna að því að gera fimm sprengjur sem taldar eru vera frá síðari heimsstyrjöldinni óvirkar.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC er rýmingin í dag sú önnur stærsta sinnar tegundar í Þýskalandi. Sprengjur úr síðari heimsstyrjöldinni finnast enn reglulega í Þýskalandi rúmum sjötíu árum eftir að henni lauk.

Íbúunum var ráðlagt að taka með sér nauðsynjar og hafa borgaryfirvöld skipulagt ýmsa viðburði til að fólkið geti reynt að njóta dagsins þrátt fyrir aðstæður. Yfirvöld vonast til þess að það geti snúið aftur til síns heima í kvöld.

Hannover varð illa úti í sprengjuárásum bandamanna í síðari heimsstyrjöldinni. Þúsundir íbúa hennar fórust í árásunum og stór hluti borgarinnar var jafnaður við jörðu.

Rýmingin nú nær til um 10% íbúa í Hannover. Stærsta rýmingin í Þýskalandi vegna sprengju úr seinni heimsstyrjöldinni átti sér stað í Augsburg á jóladag. Þá þurftu 54.000 manns að yfirgefa heimili sín eftir að sprengja upp á 1,8 tonn fannst við byggingarframkvæmdir í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×