Erlent

Kólumbískur raðmorðingi fær 36 ára dóm

Atli Ísleifsson skrifar
Fredy Armando Valencia var handtekinn árið 2015.
Fredy Armando Valencia var handtekinn árið 2015. Vísir/EPA
Dómstóll í Kólumbíu hefur dæmt Fredy Armando Valencia, sem hefur viðurkennt að hafa orðið sextán manns að bana, í 36 ára fangelsi fyrir átta morðanna. Saksóknari hafði farið fram á hámarksrefsingu, fimmtíu ára fangelsi.

Maðurinn hefur í kólumbískum fjölmiðlum gengið undir nafninu „Skrímslið frá Monserrate“ í höfuðið á fjallinu í höfuðborginni Bogotá. Hann framdi morðin á árunum 2012 til 2014 og var handtekinn 2015.

Valencia bjó á fjallinu og fór reglulega niður í borgina þar sem hann kyrkti konur sem neituðu að sofa hjá honum eftir að hann hafði boðið þeim föt, skart og fíkniefni í skiptum fyrir að verja með honum nótt.

Dómstóllinn mun síðar taka fyrir hin átta morðin sem hann hefur viðurkennt að bera ábyrgð á.

Valencia mun afplána dóm sinn í fangelsinu La Picota, suður af Bogotá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×