Erlent

25 sekúndum frá því að hlaupa maraþon á undir tveimur tímum

Atli Ísleifsson skrifar
Eliud Kipchoge eftir að hafa unnið maraþonhlaupið á Ólympíuleikunum í Ríó síðasta sumar.
Eliud Kipchoge eftir að hafa unnið maraþonhlaupið á Ólympíuleikunum í Ríó síðasta sumar. Vísir/afp
Keníumanninum Eliud Kipchoge mistókst í morgun að verða fyrstur manna til að hlaupa maraþon á undir tveimur tímum. Tilraunin var gerð við kjöraðstæður á Ítalíu og var hann 25 sekúndum frá því að takast ætlunarverkið.

Tími hins 32 ára Kipchoge var 2:00:24 þar sem hann naut aðstoðar manna sem héldu uppi hraðanum allan tímann verður tíminn því ekki skráður sem heimsmet. Dennis Kimetto á því enn hraðasta tímann, 2:02:57.

Tilraunin var skipulögð af Nike fyrir luktum dyrum á kappakstursbrautinni Monza á Ítalíu, en auk Kipchoge gerðu Erítreumaðurinn Zersenay Tadese og Eþíópíumaðurinn Lelisa Desisa tilraun til að ná takmarkinu. Snemma í hlaupinu var ljóst að þeir Tadese og Desisa myndu ekki ná tíma undir tveimur tímum.

Í frétt BBC kemur fram að tilraunin hafi verið gerð á sama degi ársins og hinum breska Roger Bannister tókst að hlaupa míluna á undir fjórum mínútum. Það gerði Bannister fyrir 63 árum síðan.

Kappakstursbrautin Monza varð fyrir valinu vegna fárra krappra beygja og góðar veðurfræðilegar aðstæður á svæðinu. Svokallaðir hérar héldu uppi hraðanum og brutu vindinn fyrir þá hlaupara sem gerðu tilraun til að ná takmarkinu. Þá var drykkjum komið til þetta af mönnum á mótorhjólum til að þeir þyrftu ekki að hægja á sér á drykkjarstöðvum.

Til að ná takmarkinu hefðu mennirnir í raun þurft að hlaupa 100 metrana á sautján sekúndum að meðaltali, 422 sinnum í röð.

Kipchoge var þrátt fyrir allt ánægður með árangurinn og sagði daginn sögulegan.

Nike greiddu mönnunum fé til að sleppa London- og Berlínarmaraþonunum í ár til að taka þátt í tilrauninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×