Erlent

Átta menn dæmdir fyrir að skipuleggja hryðjuverkaárás á ÓL í Ríó

Atli Ísleifsson skrifar
Frá opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Ríó de Janeiro.
Frá opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Ríó de Janeiro. Vísir/AFP
Dómari í Brasilíu hefur dæmt átta menn í fangelsi frá fimm til allt að fimmtán árum fyrir að hyggja á hryðjuverkaárás á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst síðastliðnum og fyrir að breiða út boðskap ISIS-samtakanna á netinu.

Mennirnir voru handteknir skömmu áður en leikarnir hófust en þeir eru allir brasilískir ríkisborgarar.

Höfuðpaurinn Leonid El Kadre de Melo fékk lengsta dóminn, fimmtán ár, og segir lögmaður hans að hann sé nú í hungurverkfalli. Hinir dæmdu munu allir áfrýja dómnum.

Saksóknarar segja mennina ekki hafa tilheyrt hryðjuverkasamtökunum ISIS en höfðu reynt að komast í samband við þau.

Bandaríska alríkislögreglan FBI hafði fylgst með mönnunum áður en þeir voru handteknir af lögreglu í Brasilíu, tveimur vikum fyrir setningu leikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×