Erlent

Íslensk nafnahefð vefst fyrir Kanadamönnum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Thor Henriksson með íslenska vegabréfið sitt og eitt hinna fjölmörgu skjala sem hann hefur þurft að afhenda.
Thor Henriksson með íslenska vegabréfið sitt og eitt hinna fjölmörgu skjala sem hann hefur þurft að afhenda. MYND/AÐSEND
Umsóknum íslenska kvikmyndagerðarmannsins Thors Henrikssonar um kanadískan ríkis­borgararétt hefur ítrekað verið hafnað vegna íslensku nafnahefðarinnar. Hann vonar að umfjöllun um málið verði til þess að því ljúki loksins en hann segist ekki vera eini Íslendingurinn sem hefur lent í basli vegna nafns síns.

Thor, sem hét upphaflega Þorsteinn Þorsteinsson, flutti til Kanada með móður sinni undir lok sjöunda áratugarins. Við komuna til Kanada var móður hans tjáð að réttast væri að láta hann hafa sama eftirnafn og faðir hans bar. Því var hann skráður Þorsteinn Sæmundsson þar í landi.

„Eftir að fjölmiðillinn CBC fjallaði um málið og það var í miðlum hér heima heyrði skrifstofa innflytjendamála í mér og spurði út í þessi mál mín. Þau sögðu að þau þyrftu einhver gögn til að geta klárað þetta en ég hló og sagði að þau væru með þau nú þegar,“ segir Thor.

Hann áætlar að mappan hans hjá yfirvöldum sé orðin um tomma að þykkt en þangað hefur hann þurft að senda þýðingar á íslenskum skjölum á borð við fæðingarvottorð og nafnskírteini.

„Móðir mín og bróðir minn eru bæði orðin kanadísk en þetta gengur eitthvað hægar hjá mér,“ segir Thor. Hann sótti fyrst um kanadískan ríkisborgararétt þegar opnað var á að hafa tvöfalt ríkisfang þar í landi. Það var á níunda áratug síðustu aldar. Síðustu tíu ár hefur hann ítrekað sótt um kanadískt vegabréf en íslenska nafnið hefur alltaf þvælst fyrir honum.

„Ég er ekki einn um að lenda í svona basli. Ég veit um þrjá aðra innflytjendur frá Íslandi sem þurftu að berjast við skrifræðið og vinur minn stendur í stappi um ættleiðingu á barni þar sem yfirvöldum þykir þýðing nafns þess úr kyrillísku letri ekki rétt,“ segir Thor.

Thor heldur fast í íslenska ríkisborgararéttinn einnig og hefur heimsótt landið reglulega þótt hann hafi lengið búið ytra.

Meðal annars starfaði hann hér á Íslandi þegar hann var nítján ára gamall.

„Sem minnir mig á það, ég þarf líka að endurnýja íslenska vegabréfið mitt,“ segir hann að lokum og hlær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×