Erlent

Lögreglumaður í Texas sviðsetti eigin dauðdaga og flúði til Mexíkó

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Coleman Martin, umræddur lögreglumaður.
Coleman Martin, umræddur lögreglumaður. Lögreglan í Austin
Lögregluyfirvöld í Austin í Texax telja nú að lögreglumaður að nafni Coleman Martin hafi sviðsett dauða sinn og sé nú við hestaheilsu í Mexíkó. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni sem hún birti á föstudag auk handtökuskipunar.

Hvarf Martin uppgötvaðist þann 25. apríl síðastliðinn. Þá hringdi eiginkona hans í lögregluna og tjáði þeim að hann hefði yfirgefið hús þeirra undir þeim formerkjum að hann yrði að „hreinsa hugann.“ Þá hafi hann svo loks sent eiginkonu sinni mynd af bréfi þar sem hann tilkynnti henni að hann ætlaði sér að taka eigið líf.

Eftir stutta leit fann lögreglan bíl mannsins auk bréfsins sem hann hafði sent konu sinni mynd af, nálægt stöðuvatni við landamæri Mexíkó. Lögreglan leitaði að líki mannsins í vatninu án árangurs.

Eftir frekari rannsókn komst lögreglan svo loks að hinu rétta. Maðurinn hafði átt í leynilegu sambandi við aðra konu í fjölda ára en þegar lögreglan yfirheyrði umrædda konu kom í ljós að Martin hafði sent henni tölvupóst þann 26. apríl síðastliðinn og því eftir meint sjálfsvíg. 

Hann hafi því sviðsett sjálfsvíg sitt til að freista þess að hefja nýtt líf með leynilegri ástkonu sinni. Eins og áður segir leitar lögregla nú mannsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×