Erlent

Svisslendingur njósnaði um þýska skattinn

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Svissneskir bankar vilja vita hvernig þýsk skattayfirvöld komust yfir upplýsingar um viðskiptavini þeirra.
Svissneskir bankar vilja vita hvernig þýsk skattayfirvöld komust yfir upplýsingar um viðskiptavini þeirra. vísir/AFP
Þýska lögreglan handtók í Frankfurt í lok síðustu viku Svisslending sem grunaður er um að hafa njósnað fyrir svissnesku leyniþjónustuna um starfsmenn skattayfirvalda í Þýskalandi. Maðurinn á að hafa reynt að afla upplýsinga um hvernig þýsk skattayfirvöld komust yfir tölvugögn með lista yfir Þjóðverja sem grunaðir eru um að hafa falið fé í svissneskum bönkum.

Svisslendingurinn er fyrrverandi lögreglumaður sem starfað hefur við öryggismál hjá einum af stórbönkum Sviss. Hann hefur jafnframt njósnað í Þýskalandi fyrir svissnesku leyniþjónustuna NDB.

Þýsk yfirvöld, einkum í Nord­rhein-Westfalen, hafa um árabil keypt tölvugögn fyrir samtals 19 milljónir evra af einstaklingum sem búa yfir upplýsingum um viðskiptavini svissneskra banka.

Samkvæmt frásögn dagblaðsins Süddeutsche Zeitung hafa yfirvöld fyrir tilstilli þessara upplýsinga innheimt yfir sex milljarða evra í skatta og sektir.

Yfirvöld í Sviss líta á þetta sem ólögleg viðskipti með leynilegar upplýsingar og svissneskir saksóknarar hafa gefið út handtökuskipun á skattrannsóknarmenn í Þýskalandi. Viðskiptin með upplýsingar um viðskiptavini svissnesku bankanna hafa samtímis aukið þrýstinginn á Sviss að aflétta bankaleyndinni sem hefur gert landið að paradís skattsvikara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×