Erlent

Kemst ekki aftur til Kanada vegna íslenskrar nafnahefðar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Thor Henriksson, Íslendingur sem búsettur hefur verið í Kanada frá 1969 hefur staðið í ströngu við innflytjendayfirvöld þar í landi. Þau vilja ekki viðurkenna mistök sem gerð voru þegar Thor fluttist til Kanada ásamt móður sinni á sínum tíma og hafa valdið honum þó nokkrum vandræðum.

Fjallað er um málið á vef CBC, kanadíska ríkisútvarpsins þar sem rætt er við Thor.

Íslenskt nafn Thors er Þorsteinn Þorsteinsson en við komuna til Kanada frá Íslandi árið 1969 virðist landamæravörðurinn sem stimplaði mæðginin inn í landið ekki hafa áttað sig á íslenskri nafnahefð. Taldi landamæravörðurinn að Þorsteinn hlyti að bera eftirnafn föðurs síns, sem ekki var með í för, og var nafn Þorsteins því skráð sem Þorsteinn Sæmundsson á ótímabundnu landvistarleyfi Þorsteins.

Mistökin gera honum erfitt um vik að ferðast en til þess að komast aftur inn í Kanada þarf Thor nú að framvísa skírteini sem staðfestir ótímabundið landvistarleyfi hans. Hann hefur ekki getað fengið slíkt skírteini og getur heldur ekki sótt um kanadískt vegabréf.



Barist við skrifræðið í áratug

Í frétt CBC kemur fram að innflytjendayfirvöld í Kanada segir að Thor þurfi að framvísa gögnum sem sýni fram á tengsl Þorsteins Þorsteinssonar og Þorsteins Sæmundssonar, eitthvað sem Thor segist fyrir löngu hafa gert.

Thor segir hafa barist fyrir þessu í tíu ár og sent fjölmargar umsóknir með fylgigögnum í gegnum árin, án árangurs. Hefur hann meðal annars aflað gagna frá Íslandi, látið þýða þau og vottað, allt til þess að útskýra fyrir yfirvöldum í Kanada hvernig íslensk nafnahefð virkar.

„Manni langar bara til þess að gefast upp en maður verður að halda áfram að berjast gegn þessu nafnlausa, andlitslausa skrifræði,“ 

Thor, sem tók upp eftirnafnið Henriksson þegar móðir hans tók saman við mann sem bar það eftirnafn, segir að hann hafi nú fengið lögfræðing í lið með sér og að markmiðið sé á endanum að fá kanadískt ríkisfang.

Svo virðist vera að frétt CBC hafi hreyft við yfirvöldum í Kanada en á Facebook-síðu Thor segist hann hafa fengið símtal frá „ákveðinni ríkisstofnun,“ og þakkar hann guði fyrir að hafa aðgang að faxtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×