Erlent

Trump átti „gott“ símtal við Pútín um Sýrland: Vilja hittast í júlí

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump og Vladimír Pútín.
Donald Trump og Vladimír Pútín. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, átti „góðar samræður“ við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, um friðsamlega lausn á borgarastríðinu í Sýrlandi, sem og að koma á fót svokölluðum „öruggum svæðum“ í landinu, ef marka má tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Þetta er fyrsta samtalið á milli forsetanna, síðan að Trump ákvað að breyta um skoðun á málefnum Sýrlands og skjóta eldflaugum á flugvöll í eigu stjórnarliða Assad Sýrlandsforseta, eftir að fréttir bárust af efnavopnanotkun þeirra. Yfirvöld í Rússlandi gagnrýndu árásina harðlega en þau hafa stutt Assad frá upphafi. 

Segir meðal annars í tilkynningunni að forsetarnir hafi sammælst um að þjáningar borgara í Sýrlandi hafi viðgengist of lengi og að allir aðilar ættu að gera allt sem í þeirra valdi stendur, til þess að binda enda á ofbeldið.

Þannig hefðu þeir jafnframt rætt að koma á fót áðurnefndum „öruggum svæðum,“ til þess að binda jafnt og þétt enda á átökin. Auk þess ræddu þeir um leiðir til þess að sigrast á hryðjuverkum í miðausturlöndum, sem og ástandið í Norður-Kóreu.

Samkvæmt upplýsingum frá Kremlin, ræddu forsetarnir hvernig hægt væri að sigrast á hryðjuverkum, í samhengi við að ljúka borgarastríðinu í Sýrlandi og koma á raunverulegu vopnahléi. Pútín kallar jafnframt eftir því að ástandið róist á Kóreuskaga.

Þá sammældust leiðtogarnir tveir um að skipuleggja fund, sín á milli, þegar leiðtogar G20 ríkjanna hittast í Hamborg, í byrjun júlí næstkomandi. Það yrði þá í fyrsta skipti sem að Trump og Pútín hittast.

Trump hefur verið harðlega gagnrýndur heima fyrir vegna símtalsins og þá sérstaklega af Demókrötum.

Hann er sagður vera kominn aftur í gamla farið, með þóknunarstefnu sinni í garð rússneskra yfirvalda. Hann hefði átt gagnrýna Rússa fyrir tölvuárásir þeirra á bandarískar stofnanir, auk þess sem hann hefði átt að gera Pútín það ljóst, hve sterklega mótfallnir Bandaríkjamenn eru stuðningi hans við Assad Sýrlandsforseta.

Þannig hafa tveir þingmenn, sem hve mest hafa gagnrýnt utanríkisstefnu Trump, þeir John McCain og Lindsey Graham, gefið frá sér tilkynningu vegna fregna af símtalinu, þar sem segir að „nú sé ekki tíminn til þess að senda Rússum þau skilaboð að allt sé gleymt og grafið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×