Erlent

Erdogan segir að Tyrkir gætu slitið Evrópusambandsviðræðum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/Getty
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, varaði við því í dag að Tyrkir muni slíta aðildarviðræðum sínum við Evrópusambandið, ef að nýir samningskaflar verði ekki opnaðir innan tíðar.

Sextán kaflar af 35 hafa verið opnaðir, síðan að aðildarviðræður hófust í október árið 2005, en Tyrkir hafa reynt að verða aðilar að sambandinu síðan á sjöunda áratug síðustu aldar og hefur aðild þeirra ávallt verið umdeild innan Evrópusambandsins.

Það er enginn annar valmöguleiki en að opna kaflana sem hafa ekki verið opnaðir fyrr en nú. Ef sambandið mun ekki opna á þá, þá segjum við bless. Tyrkland er ekki dyravörður Evrópu.

Erdogan gekk í dag aftur í sinn gamla flokk, en breytingar á stjórnkerfi Tyrklands standa nú yfir, eftir að Tyrkir samþykktu með naumindum að færa frekari völd til forsetaembættisins. Áður fyrr mátti forseti landsins ekki vera aðili í stjórnmálaflokki.

Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur ekki lagst vel í forustumenn Evrópusambandsins og sagði stækkunarstjóri þess til að mynda að Tyrkland færðist fjær Evrópu.

Þá hafa nokkur aðildarríki sambandsins, með Austurríki í broddi fylkingar, lagt það til að aðildarferli Tyrklands ætti að frysta alfarið, vegna nýjustu vendinga í landinu.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri sambandsins, þvertekur fyrir að aðildarviðræðunum hafi verið slitið og þá hefur Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskaland, sagt að stjórnvöld í Berlín telji nauðsynlegt að halda aðildarviðræðum opnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×