Erlent

Forsetinn baulaður niður af sviðinu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Zuma hefur víða verið mótmælt.
Zuma hefur víða verið mótmælt. Vísir/AFP
Mótmælendur bauluðu Jacob Zuma, forseta Suður-Afríku, niður af sviði þar sem hann hélt ræðu í borginni Bloemfontein í tilefni af verkalýðsdeginum í gær. BBC greinir frá því að heyra hafi mátt mótmælendur krefjast afsagnar forsetans. Þá kljáðust stuðningsmenn forsetans einnig við mótmælendurna.

Cosatu, stærstu samtök verkalýðsfélaga þar í landi, fóru með formlegum hætti fram á afsögn forsetans í aprílmánuði. Var það gert í kjölfar þess að forsetinn rak Pravin Godhan, þáverandi fjármálaráðherra, í mars. Godhan var vel liðinn í heimalandinu. Leiddi brottrekstur hans til þess að lánshæfi ríkisins var lækkað niður í ruslflokk.

Cosatu höfðu mótmælt viðveru Zuma á baráttufundi gærdagsins.

Bandamenn forsetans hafa sagt að Zuma muni sitja á forsetastóli þar til kjörtímabili hans lýkur árið 2019. News24 greinir frá því að mótmælendur í gær hafi meðal annars hrópað „Hafið þið heyrt góðu fréttirnar? Zuma er að fara!“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×