Erlent

Kínverji handtekinn fyrir að falsa brúðkaupsgesti

Anton Egilsson skrifar
Fjölskylda brúðarmeyjarinnar kom upp um svikamyllu mannsins.
Fjölskylda brúðarmeyjarinnar kom upp um svikamyllu mannsins. Nordicphotos/Getty
Kínverskur maður var handtekinn á sjálfan brúðkaupsdaginn eftir að upp komst að þeir 200 gestir sem hann bauð í brúðkaupsveislu sína væru í raun leikarar sem hann hafði borgað til að mæta. Hafði maðurinn haldið því fram að um vini og vandamenn væri að ræða. 

Í frétt BBC um málið segir að það hafi verið fjölskylda brúðarinnar sem hafi flett ofan af þessari svikamyllu mannsins. Það hafi vakið hjá þeim grunsemdir að margir gestanna hafi lýst því yfir í samtölum að vera kunningjar mannsins án þess þó að greina nánar frá því hvernig þau þekktu hann í raun og veru. Þegar athöfnin hófst og ekkert bólaði á foreldrum mannsins komst hið sanna svo í ljós.

Upplýst hefur verið að aðilarnir hafi hver um sig fengið greitt um 1300 krónur fyrir ómakið. Á meðal þeirra sem maðurinn samdi við um að koma í brúðkaupið voru leigubílstjórar og námsmenn. Þá greinir einn gestanna frá því að maðurinn hafi haft samband við sig í gegnum samfélagsmiðil og boðið honum fyrrnefnda upphæð fyrir það að mæta.

Enn er ekki vitað um ástæður þess að maðurinn brá á þetta ráð. Enn fremur liggur ekki ljóst fyrir hvaða lög maðurinn á að hafa brotið með athæfi sínu. Það hefur þó verið staðfest að lögreglurannsókn standi nú yfir.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×