Erlent

Sendiherra særður eftir viðskipti sín við villigölt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Villigeltir eru engin lömb að leika sér við.
Villigeltir eru engin lömb að leika sér við. Vísir/Getty
Sendiherrar lenda oft í snúnum aðstæðum við störf í varasömum heimi alþjóðasamskipta. Sendiherra Bretlands í Austurríki þurfti að taka á stóra sínum á dögunum þegar hann var á ferð í garði í höfubörg Austurríkis, Vínarborg.

Leigh Turner er sendiherra Bretlands í Austurríki og greinir hann frá samskiptum sínum við villigöltinn í bloggfærslu á vef breska utanríkisráðuneytisins.

Í frétt BBC um málið segir að Turner hafi verið á gangi er hann varð var við villigelti örskammt frá sér. Hélt hann áfram för sinni inn í skóglendi þar sem hann varð var við annan hóp af villigöltum.

Turner vildi ekki ónáða þá og gekk hægt í burtu. Varð hann þá var við hljóð sem honum fannst vera líkast hesti á hlaupum. Þegar hann leit við sá hann að risastór villigöltur var á fljúgandi ferð í átt að honum. Turner áttaði sig á því að villigölturinn gæti hlaupið hraðar en hann sjálfur og reyndi hann því að klifra upp á trjádrumba sem þar lágu stutt frá. Vildi ekki svo betur til en að Turner rann og meiddi sig í fallinu.

Þegar sendiherrann sneri sér við var villigölturinn á bak og brott en Turner sat eftir með mar á líkama og sál eftir viðskipti sín við villigöltinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×