Innlent

Mikilvægt að gera allt til að koma í veg fyrir vandann

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sýkla­lyfja­ónæmi er ein helsta ógn sem steðjar að lýðheilsu, mat­væla­ör­yggi og framþróun í heim­in­um í dag sam­kvæmt Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­uninni­. Sóttvarnalæknir segir brýnt að ráðast í aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.

Sýklalyf eru ein merkilegasta uppgötvun læknisfræðinnar og hafa þau komið í veg fyrir milljónir dauðsfalla og aðrar alvarlega afleiðingar smitsjúkdóma. Undanfarin ár hafa aftur á móti víða um heim komið fram sýklar og bakteríur sem eru ónæm fyrir sýklalyfjum.

Sérstakur starfshópur hefur frá því í október kannað leiðir til að draga úr útbreiðslu sýkla­lyfja­ónæmra baktería hér á landi og var skýrsla þess efnis kynnt í dag.

„Útbreiðsla og aukning á svona ónæmi getur orðið verulegt heilsufarslegt vandamál. Því er spáð og það gæti gerst ef við gerum ekkert í því,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. 

Áætlað er að sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería valdi nú þegar um sjö hundruð þúsund dauðsföllum á ári, og að árið 2050 verði þær orðnar allt að tíu milljónir á ári, verði ekkert að gert. Hætt er við því að sýklalyfjaónæmi aukist hér á landi og bendir Þórólfur á að sýkla­lyfja­ónæm­ar bakt­erí­ur geti til dæmis borist hingað með ferðamönnum.

„Þannig það er mjög mikilvægt að koma upp góðri hreinlætisaðstöðu á ferðamannastöðum. Það er mikilvægt að upplýsa almenning um þetta, gæta vel hreinlætis í matargerð til dæmis, þvo sér vel um hendur og borða vel eldaðan mat. Svo snerta okkar tillögur líka eftirlit með matvælum og matvælaframleiðslu, að efla það,“ segir Þórólfur. 

En vandinn er margþættur. Sýklalyfjaónæmar bakteríur geta þrifist í mönnum, dýrum, matvælum, fóðri, vatni og umhverfi. Þórólfur segir að þörf sé á heildrænni stefnu yfirvalda í þessum málum og það strax.

„Við teljum mjög mikilvægt að það sé ráðist á þetta vandamál frá mörgum hliðum. Það er ekki nóg að gera bara einhverja eina aðgerð og telja að það muni skila árangri. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og  Sameinuðu þjóðirnar hafa ályktað að þetta sé mesta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyninu í dag. Þess vegna er mjög mikilvægt að bregðast mjög hratt við. Sérstaklega þar sem ástandið er mjög gott hjá okkur þessa stundina. Þá er mjög mikilvægt að við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir að við lendum í vanda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×