Innlent

Setja 575 milljónir í fimm og hálfan kílómetra af hjólreiðastígum

Anton Egilsson skrifar
Þeir hjólreiðastígar sem lagðir verða í sumar
Þeir hjólreiðastígar sem lagðir verða í sumar Reykjavíkurborg
Reykjavíkurborg mun leggja um fimm og hálfan kílómetra af sérstökum hjólreiðastígum víða um borgina í sumar. Á vef borgarinnar kemur fram að áætlaður kostnaður við lagningu stíganna sé 575 milljónir króna með hönnun og skiltum. Þar af er kostnaðarhlutdeild Reykjavíkurborgar 450 milljónir.

Fram kemur í tilkynningunni að tvö stærstu verkefnin séu lagning 1,6 kílómetra hjólreiðastígs í Elliðaárdal frá Bústaðavegi að Höfðabakka og lagning eins kílómetra stígs meðfram Suðurlandsbraut frá Engjavegi að Langholtsvegi. Kostnaður við fyrrnefnda hjólreiðastíginn eru 120 milljónir króna en við þann síðarnefnda 128 milljónir.

„Hluti stíganna sem lagður verður er samstarfsverkefni borgarinnar og veitufyrirtækja. Stígarnir eru aðgreindir frá umferð gangandi og akandi vegfarenda þar sem mögulegt er til að bæta umferðaröryggi,” segir á vef Reykjavíkurborgar.

Framkvæmdirnar munu standa yfir frá því í maí og fram í október en að framkvæmdum loknum verða sérstakir hjólreiðastígar í Reykjavík orðnir um 27 kílómetrar að lengd.

Eftirfarandi hjólreiðastígar verða lagðir í sumar:

Birkimelur (Hringbraut að Hagatorgi) -  kostnaður 46 milljónir króna

Bústaðavegur (Háaleitisbraut – Eyrarland) - kostnaður 25 mkr.

Elliðaárdalur - (Bústaðavegur að Höfðabakka) - kostnaður 120 mkr.

Geirsgata frá Pósthússtræti að Kalkofnsvegir - kostnaður 6 mkr.

Kalkofnsvegur (Geirsgata að Faxagötu) - kostnaður 20 mkr.

Kringlumýrarbraut (Suðurhlíðar – Kópavogur) - kostnaður 78 mkr.

Miklabraut (Rauðarárstígur – Langahlíð) kostnaður 20 mkr.

Miklabraut við Rauðagerði - kostnaður 36 mkr.

Suðurlandsbraut (Engjavegur – Langholtsvegur) kostnaður 128 mkr.

Sæbraut (Kringlumýrarbraut- Laugarnes) - kostnaður 44 mkr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×