Innlent

Fjalla um kynferðisbrot gegn drengjum og körlum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ráðstefnan verður haldin í Háskólanum á Akureyri.
Ráðstefnan verður haldin í Háskólanum á Akureyri.
Ráðstefnan Einn blár strengur verður haldin laugardaginn 20. maí næstkomandi í Háskólanum á Akureyri en fjallað verður um kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum og körlum.

Nafn ráðstefnunnar má rekja til þess að einn af hverjum sex karlmönnum hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en um er að ræða verkefni til vitundarvakningar um slíkt ofbeldi í samstarfi við alþjóðleg samtök og fór verkefnið af stað meðal kennara og nemenda á heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri.

Fjöldi innlendra sem og erlendra fyrirlesara mun koma fram á ráðstefnunni og flytja fyrirlestra sem fjalla á ýmsan hátt um kynferðisofbeldi gagnvart karlmönnum og er þar á meðal Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Á ráðstefnunni mun Svala koma til með að fjalla um dóma Hæstaréttar um kynferðisbrot gegn drengjum. Fyrirlestur Svölu mun snúa að rannsókn hennar á dómum Hæstaréttar þar sem sakfellt hefur verið fyrir kynferðisbrot og niðurstöður þeirrar rannsóknar.

„Þetta er hluti af stærri rannsókn á dómum Hæstaréttar um kynferðisbrot gegn börnum, bæði stúlkum og drengjum en ég mun fjalla sérstaklega um niðurstöðurnar hvað drengina varðar.“

„Þetta eru dómar Hæstaréttar frá 1920 til ágúst 2015 þar sem ég er búinn að greina upplýsingar um gerandann og verknaðinn, aðstæður og tengsl, aldur og aldursbil, umbun og hótun, refsingar og málsmeðferðartímann.“

Dagskrá ráðstefnunnar má sjá hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×