Innlent

Hafa hreiðrað um sig í niðurníddu hjólhýsi í Ljósheimum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Mennirnir hófu að gista í hjólhýsinu um helgina.
Mennirnir hófu að gista í hjólhýsinu um helgina. vísir/gva
Um síðustu helgi hófu menn að gista í hjólhýsi sem er í niðurníðslu á bílastæði við blokkarlengju í Ljósheimum. Íbúi í blokk þar segir ljóst að menn séu að nota þetta sem húsaskjól og sökum þess að þar sé ekki hreinlætisaðstaða hafi sést til þeirra að gera þarfir sínar á bak við runna við lóðina. Þetta valdi íbúum óþægindum.

Íbúinn segir að hann gruni nágranna sinn um að eiga hjólhýsið, hann sé að minnsta kosti skráður fyrir trukknum sem lagt er upp við hjólhýsið. Annar nágranni hans segist hafa gengið á eigandann, en hann hafi hreytt í hann svörum; að vel gæti verið að menn hefðu athvarf í hjólhýsinu en hann væri búinn að selja það. Hjólhýsið hefur þó ekki verið fært, hafi það verið selt.

Nágrannar eru uggandi yfir ástandinu. Mennirnir geri þarfir sínar á lóðinni, en ekki síst vegna þess að bak við hjólhýsið er leikvöllur og börn leiki sér þar. Íbúinn segist í samtali við Fréttablaðið hafa talað við lögregluna vegna málsins sem hafi sagt honum að svona búseta væri á gráu svæði. Fyrst og fremst væri þetta málefni heilbrigðisnefndar borgarinnar. Íbúinn hefur hingað til ekki náð sambandi við nefndina.

Hann segir bíl hafa komið með mennina og sótt að minnsta kosti einn þeirra að því er virðist vera til vinnu. Því veltir hann fyrir sér hvort um verkamenn sé að ræða sem hafi ekki annað úrræði. Hann segir þetta óþægilegt fyrir íbúa. Menn séu farnir að ímynda sér að mennirnir gætu verið þjófar eða að þarna sé verið að selja fíkniefni.

Hjólhýsið hefur áður valdið nágrönnum óþægindum. Það fauk á hvolf í vetur og var á hvolfi þar til lögreglan rak á eftir eigandanum að reisa það við og hurðin brotnaði af. Hún er enn þá brotin og hefur tréspjaldi verið komið fyrir en ekki er hægt að læsa eða loka hjólhýsinu.

Ítrekað var reynt að ná sambandi við manninn sem talinn er enn eiga hjólhýsið við vinnslu fréttarinnar, án árangurs. Því er ekki ljóst hvort um er að ræða hústökumenn, leigjendur eða nýja eigendur hjólhýsisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×