Innlent

Slökkviliðið prófar búnað sem hefur áhrif á stöðu umferðarljósa

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vonast er til að tímabundin óþægindi vegna lokana borgi sig síðar meir.
Vonast er til að tímabundin óþægindi vegna lokana borgi sig síðar meir. vísir/ernir
Óþægindi sem fylgja framkvæmdum skila oftast öruggari götum að þeim loknum að mati slökkviliðsstjóra. Tilraunir standa einnig yfir með kerfi sem veitir viðbragðsaðilum forgang á ljósum.

Jón Viðar Matthíasson, slökkvliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.VÍSIR/STEFÁN
„Lokanir og breytingar geta valdið töfum hjá okkur en þegar þeim er lokið þá erum við yfirleitt komin með betri götur en áður,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.

Framkvæmdir standa yfir á ýmsum götum í og við miðbæ Reykjavíkur sem hafa áhrif á umferð. Má þar nefna þrengingu á Miklubraut til vesturs, lokanir í kringum Hörpu og á Framnesvegi. Jón Viðar segir að slökkviliðið sé í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins.

„Miklabrautin að framkvæmdum loknum verður miklu öruggari en sú gata sem við höfum í dag. Ég býð nú ekki einu sinni í það ef við hefðum ekki strætóakreinina sem við þó höfum núna,“ segir Jón Viðar. „Þetta er óþægilegt meðan á þessu stendur en við munum sjá ávinning af því.“

Slökkviliðsstjórinn segir að sjúkraflutningamenn séu duglegir að láta hver annan vita af því hvernig staðan á umferðinni sé. Þá sé einnig unnið að því að taka í notkun kerfi sem geri þeim kleift að hafa áhrif á stöðu umferðarljósa.

„Við höfum verið að prófa þetta á Snorrabrautinni að láta grænu bylgjuna koma á til að komast hraðar í gegn. Við höfum fjárfest í búnaði fyrir bílana og það er unnið að því að þróa kerfið áfram og fínstilla það. Vonandi verður það komið á fullt í lok árs,“ segir Jón Viðar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×