Innlent

Farsímafikt fer með friðinn á AA-fundum

Jakob Bjarnar skrifar
Sumir halda því fram að það að leggja kapal í síma sínum eða spila Candy Crush, hjálpi til við að einbeita sér að því sem fram fer á fundinum.
Sumir halda því fram að það að leggja kapal í síma sínum eða spila Candy Crush, hjálpi til við að einbeita sér að því sem fram fer á fundinum.
Svo virðist sem margir geti ekki sleppt taki á snjallsímum sínum, ekki undir nokkrum kringumstæðum – jafnvel ekki á AA-fundum.

Í vinahópi SÁÁ á Facebook er vakin athygli á þessu. Kona nokkur segist ekki vilja rugga neinum bátum en svo sé að á mörgum AA-fundum sé þeim tilmælum beint til fundarfólks að slökkva á farsímum sínum meðan á fundi stendur.

Að fylgjast með Facebook á AA-fundum

Hún segir að það færist mjög í aukana að þau tilmæli séu ekki virt og það sem meira er, athygli margra þeirra sem fundina sitja eru alfarið á símanum en ekki á því sem á fundinum er sagt. Og eru þeir þá til lítils.

„Ég hef upplifað það oftar en einu sinni að sessunautur minn á AA fundi er að fletta Facebook eða vefsíðum í símanum allan fundartímann,“ segir konan sem viðurkennir að þetta trufli hana og dregur athygli hennar frá því hvað er að gerast á fundinum – sama hversu mjög hún reyni að taka æðruleysið á þetta. Og bætir við:

„En á maður að sætta sig við þetta? Er til of mikils ætlast að sýna einnar klukkustundar AA fundi og því fólki sem er að sækjast eftir hugarró þar inni - þá virðingu að vera Á fundinum en ekki einhversstaðar í netheimum?“

Candy Crush hjálpar uppá einbeitinguna

Málið er rætt í hópnum og meðal annars bent á að líkast til hafi snjallsímar ekki verið til þegar erfðavenjur AA-samtakanna voru settar saman.

Og þeir eru til sem segja símanotkun sína ekki þannig að þar með sé verið að sýna öðrum óvirðingu eða að athyglin sé ekki á fundinum, heldur þvert á móti: „Ég legg oft kapal í símanum á AA fundi. Það hjálpar mér að heyra betur. Alveg eins og það hjálpaði mér að krota og teikna í tímum sem krakki - heyrði betur.“

Og önnur kona bætir við: „Ég viðurkenni að vera stundum i candy crush, en það hjálpar mér líka að einbeita mér betur að því sem er verið að segja. En það er yfirleitt bara á stóru fundunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×