Innlent

Lögreglan rannsakar umtalsvert magn af stolnum strætókortum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Svona líta stolnu kortin út.
Svona líta stolnu kortin út.
Umtalsvert magn af stolnum þriggja mánaða strætókortum eru nú í umferð og hefur strætó þegar gripið til þess að breyta útliti nýrra korta til að sporna við frekari útbreiðslu þeirra. Brotið hefur verið kært til lögreglu og er þar til rannsóknar.

Vagnstjórum og eftirlitsfólki í vögnum Strætó hefur verið gert viðvart um númeraröð kortanna sem stolið var. Þeim hefur verið uppálagt að gera öll stolin kort sem framvísað er í vögnum Strætó upptæk.

Vill Strætó leggja áherslu á að farþegar kaupi eingöngu kort eða farmiða af viðurkenndum söluaðilum Strætó til að komast hjá slíkum óþægindum.

„Við viljum hvetja öll þau sem veitt geta upplýsingar um sölu eða notkun á þessum stolnu strætókortum að hafa samband við okkur hjá Strætó eða beint við lögregluna. Við lítum málið alvarlegum augum og vonumst til þess að með hjálp almennings komist lögreglan til botns í málinu,“ segir Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó í tilkynningu.

„Við bendum farþegum okkar á að öruggasta leiðin til þess að komast hjá öllum óþægindum sem geta orðið vegna notkunar á ólöglegum kortum er að kaupa þau af viðurkenndum söluaðilum eða í Strætó-appinu.“

Strætó biðlar til þeirra sem verða varir við sölu á strætókortum utan viðurkenndra sölustaða að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×