Innlent

Bein útsending: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Theresa May ætlar að sitja sem fastast sem forsætisráherra Bretlands þrátt fyrir að flokkur hennar, Íhaldsflokkurinn, hafi tapað þingmeirihluta sínum í kosningum til Breska þingsins í gær. May boðaði sjálf til kosninganna undir því yfirskyni að vilja styrkja þingmeirihluta sinn vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en formlegar viðræður um Brexit hefjast eftir tíu daga. Hún hefur nú myndað minnihlutastjórn með Lýðræðislega sambandsflokknum. Við fjöllum ítarlega um þá flóknu stöðu sem nú er uppi í breskum stjórnmálum í beinni útsendingu frá Lundúnum í fréttum Stöðvar 2 klukkan 18.30 þar sem Þorbjörn Þórðarson fréttamaður 365 er staddur.

Í fréttatímanum verður einnig fjallað um manndrápsmálið í Mosfellsdal. Fimm karlar og ein kona hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald grunuð um að hafa orðið Arnari Jónssyni Aspar að bana á miðvikudagskvöld. Þau eru nú í einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði. Þau verða yfirheyrð um helgina en Grímur Grímsson, sem stýrir rannsókn málsins, segir að lögreglan hafi ágæta heildarmynd af atburðarásinni. Verið sé að rannsaka hve mikið hver og einn kom að árásinni og hver ástæðan var.

Við verðum líka á léttari nótum og heimsækjum Bíldudalsflugvöll sem orðinn er að alþjóðaflugvelli. Þá verðum við í beinni frá undirbúningi Litahlaupsins, The Colour Run, sem fram fer á morgun. Búist er við að yfir tíu þúsund manns taki þátt í hlaupinu.

Ekki missa af fréttum Stöðvar 2 á slaginu 18.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×