Innlent

Breyttar aðstæður til veiða í Andakílsá

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Eiríkur Hjálmarsson, talsmaður Orku náttúrunnar
Eiríkur Hjálmarsson, talsmaður Orku náttúrunnar
Allar líkur eru á að aðstæður til veiða í Andakílsá verði gjörbreyttar og erfiðar í sumar. Mun ásýnd árinnar, og ímynd hennar í huga veiðimanna, jafnframt breytast. Þetta kemur fram í bréfi Orku náttúrunnar til Umhverfisstofnunar. Þar er rakin atburðarás sem leiddi til þess að mikið af seti úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar fór niður í farveg árinnar upp úr miðjum maí. Í fyrstu var talið að um fjögur til fimm þúsund tonn af seti hefðu farið í farveg árinnar, en sérfræðingar telja nú að magnið sé fimmtán til átján þúsund tonn.

Eiríkur Hjálmarsson, talsmaður Orku náttúrunnar, segir verkefnahóp hafa verið settan á fót undir lok maí til að meta hvaða aðgerðir skynsamlegast sé að ráðast í til þess að takmarka áhrif aurburðarins á lífríki árinnar. Hópurinn hefur gert mælingar í ánni og munu niðurstöður liggja fyrir bráðlega, að sögn Eiríks. Á grundvelli þeirra mun hópurinn ákveða hvort grípa eigi til aðgerða til að flýta fyrir að setið skolist úr ánni.

Andakílsá framleiðir gönguseiði mest á þremur árum. Í bréfinu segir að allar líkur séu á að yngsti árgangurinn, þ.e. hrygningin síðasta haust, hafi að stærstum hluta misfarist. Þá hafi væntanlega orðið gríðarleg afföll á eldri árgöngum laxaseiða.

Fyrirtækið mun leggja sig í líma við að hreinsa ána og umhverfi hennar sem best og svo fljótt sem verða má. Fyrirtækið lýsir fullri ábyrgð á atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×