Innlent

Sjúkraliðar furða sig á tillögum um tveggja ára hjúkrunarnám

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjúkraliðar starfa bæði við almenna og sérhæfða umönnun sjúklinga og þá oft á hjúkrunarsviði.
Sjúkraliðar starfa bæði við almenna og sérhæfða umönnun sjúklinga og þá oft á hjúkrunarsviði. vísir/vilhelm
Mikil reiði hefur gripið um sig innan starfsstéttar sjúkraliða eftir að nýjar tillögur um hjúkrunarnám, sem leggja á fyrir heilbrigðisráðherra, voru kynntar. Tillögurnar gera ráð fyrir að fólk sem lokið hefur háskólaprófi geti fengið réttindi til hjúkrunar á tveimur árum. Formaður Sjúkraliðafélags Íslands furðar sig á því að sjúkraliðar séu sniðgengnir í þessum fyrirætlunum.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær var sagt frá því að Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Félag hjúkrunarfræðinga hafi sett saman tillögur um breytingar á námi hjúkrunarfræðinga, þannig að fólk með aðra háskólamenntun geti fengið réttindi til hjúkrunar á tveimur árum, til að stemma stigu við skorti á hjúkrunarfræðingum.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir í samtali við Vísi að augljóst sé að sjúkraliðar séu töluvert betur í stakk búnir til hjúkrunarfræðináms en meirihluti fólks með háskólagráðu í óskyldum fögum.

„Það verður að segjast alveg eins og er að sjúkraliði hefur miklu meiri grunn til þess að fara í þetta nám en til dæmis verkfræðingur, það er margbúið að sanna. Við erum undrandi á þessu, við getum ekki kallað þetta annað en menntahroka.“

Sjúkraliðar starfa bæði við almenna og sérhæfða umönnun sjúklinga og þá oft á hjúkrunarsviði. Námið er viðurkennt starfsnám, sem hægt er að leggja stund á í fjölbrautaskólum víða um land, en sjúkraliðar útskrifast því ekki með ígildi háskólagráðu. Kristín segir að eðli námsins samkvæmt sæki sjúkraliðar mikið í hjúkrunarfræði að námi loknu. Hún harmar því að starfssystkini sín muni mögulega þurfa að hafa meira fyrir hjúkrunarnámi á háskólastigi en aðrir, sem engan grunn hafa í hjúkrun.

Þá segir Kristín Sjúkraliðafélagið fyrst og fremst undrandi á tillögunni og hvernig staðið sé að henni.

„Já, fólk er mjög hissa. Ég er hérna í rútu á ferðalagi með sjúkraliðum og við höfum verið að bera saman bækur okkar. Fólk er á einu máli um að það á ekki orð yfir þessu.“


Tengdar fréttir

Réttindi til hjúkrunar á tveimur árum

Fólk með aðra háskólamenntun getur fengið réttindi til hjúkrunar á tveimur árum, samkvæmt nýjum tillögum sem leggja á fyrir heilbrigðisráðherra í næstu viku. Enginn afsláttur verður þó gefin á gæðum námsins, segir deildastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×