Innlent

Persónuvernd skikkar Já.is til að fjarlægja 360° myndir úr skráningum notenda

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Já.is hefur frest fram að 19. júní næstkomandi til þess gera úrbætur á stöðunni.
Já.is hefur frest fram að 19. júní næstkomandi til þess gera úrbætur á stöðunni. Vísir
Dæmi um leyfilega myndbirtingu við skráningu notanda á Já.is.Já.is
Birting mynda af heimilum einstaklinga á Já.is samræmist ekki persónuverndarlögum. Þetta er niðurstaða Persónuverndar en úrskurðurinn á aðeins við um birtingar Já.is á 360 gráðu götumyndum á sömu síðu og upplýsingar um heimili einstaklinga. Já.is hefur nú frest fram að 19. júní næstkomandi til að vinna að úrbótum.

Í ákvörðun Persónuverndar kemur fram að stofnuninni hafi borist ábending um vinnslu persónuupplýsinga á Já.is, þess efnis að þegar leitað væri að upplýsingum um einstaklinga á vefsíðunni birtust þar sjálfkrafa myndir af heimilum þeirra. Þessa birtingu segir Persónuvernd ekki samræmast lögum um samþykki persónuupplýsinga.

Margrét Gunnlaugsdóttir, vöru- og viðskiptaþróunarstjóri Já.is, segir fyrirtækið ætla að verða við niðurstöðu Persónuverndar en hún vill halda því til haga að ekki séu gerðar athugasemdir við myndirnar sjálfar heldur birtingarformið.

Myndbirting með skráningu einstaklings sem Persónuvernd mat ólöglega.Já.is
„Persónuvernd er í rauninni ekki að gera athugasemd við það að við séum með þessar 360 gráðu myndir á vefnum heldur birtingarformið á myndunum, þegar þær birtast við skráningu notenda.“

Margrét sagði Já.is hafa talið sér þetta heimilt þar sem bæði persónuvernd og almenningi hefði verið kunnugt um þessa virkni heimasíðunnar. Persónuvernd var ekki sama sinnis og taldi myndbirtinguna óheimila vegna þess að ekki hefði fengist upplýst samþykki frá skráðum notendum.

„Já.is taldi sig hafa nægilega skýrt samþykki fyrir því að birta myndirnar með þessum hætti en Persónuvernd telur fyrirtækið þurfa skýrara, upplýst samþykki fyrir myndbirtingunni," sagði Margrét en hún segir myndbirtinguna jafnframt þjónustu sem notendur fyrirtækisins bæði vilja og nota. Hún segir fyrirtækið nú ætla að hefja vinnu að öflun þessa samþykkis.

Samkvæmt niðurstöðu Persónuverndar hefur Já.is nú frest fram að 19. júní næstkomandi til þess gera úrbætur á stöðunni. Að sögn Margrétar ætlar fyrirtækið að fjarlægja þær myndir sem heyra undir hina ólöglegu myndbirtingu. Þá er hún vongóð um að myndirnar komi aftur inn á vefinn þegar samþykkis notenda hefur verið aflað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×