Innlent

Aska frumbyggja Eldlands sögð vera í Raufarhólshelli

Kristján Már Unnarsson skrifar
Minningarskjöldur sem nýlega fannst í Raufarhólshelli er sagður styðja frásögn um að ösku síðasta frumbyggjans af syðsta ættbálki jarðar hafi verið komið fyrir í hellinum fyrir um þrjátíu árum. Fjallað var um þessa dularfullu sögu í frétt Stöðvar 2, sem sjá má í spilaranum hér að ofan, en þar var rætt við Hallgrím Kristinsson, framkvæmdastjóra Raufarhóls ehf. 

Sagan segir að í kringum árið 1990 hafi útlendingur komið með duftker inn í Raufarhólshelli og sett upp minningarskjöld þar sem hann kom fyrir ösku frumbyggja frá syðsta hluta Chile, Eldlandi. Sagan þótti undarleg enda virtist skjöldurinn hafa glatast og fannst ekki í hellinum.

 

Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri Raufarhóls ehf.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Þegar starfsmenn Raufarhóls ehf. voru nýlega að smíða göngupall í hellinum fannst hins vegar skjöldurinn og hafði hann fallið á milli stórra steina, að sögn Hallgríms. Þeir fóru því að kanna söguna betur og röktu hana til manns sem átti að hafa fyrir 1950 kynnst syðsta þjóðflokki heims, Yaghan-fólkinu á Eldlandi, syðst í Suður-Ameríku, en ættbálkurinn taldi þá um 200 manns. 

Ein sagan er að þetta hafi verið Þjóðverji og þegar hann heimsótti Eldland fjörutíu árum síðar hafi aðeins ein kona verið eftir af ættbálknum.

„Hann hafði lofað þessari konu að koma ösku hennar á friðsaman og fallegan stað. Og hann fór með öskuna hingað í Raufarhólshelli og setti þennan platta upp til minningar um þennan ættbálk,” segir Hallgrímur. 

Nánar var fjallað um indíánasöguna og Raufarhólshelli í nýjum þætti sem hóf göngu sína á Stöð 2 í kvöld; Ísland í sumar.

 

Úr Raufarhólshelli. Búið er að gera hellinn greiðfæran með stígum og göngupöllum. Ljósabúnaður lýsir upp hellinn.Vísir/Vilhelm.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×