Innlent

„Búum ekki yfir upplýsingum þess efnis að hér sé í undirbúningi ódæðisverk“

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir lögregluyfirvöld ekki búa yfir upplýsingum þess efnis að hér á landi sé hryðjuverk í undirbúningi. Gera má ráð fyrir frekari lokunum fyrir umferð í miðborginni til að tryggja öryggi almennings á stórum viðburðum.

Í áhættumati greiningardeildar Ríkislögreglustjóra vegna hryðjuverkahættu hér á landi, sem gefið var út í lok janúar, er áhættan sögð í meðallagi og er metin sú sama og greiningardeildin gaf út fyrir árið 2015.

Hryðjuverkaógnin hefur verið að færast nær Íslandi vegna þeirra atburða sem gerst hafa í Svíþjóð, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi á síðustu misserum.

„Við teljum að bara eðlilegt að við færum okkur í meðallag sem að þýðir það að það sé ekki hægt að útiloka hættuna á hryðjuverkum,“ segir Gylfi Hammer Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn í greiningardeild ríkislögreglustjóra.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir áhættumati frá greiningardeild ríkislögreglustjóra vegna þeirra fjölmennu viðburða sem haldnir verða í miðborginni í sumar.

„Þessi vinna er farin af stað og gengur vel og það má segja það að þessi beiðni sem kom frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við brugðumst mjög hratt við henni. Það má búast við því að lögreglan verði með einhverskonar ráðstafanir í kjölfarið,“ segir Gylfi.

Í ljósi þeirra hryðjuverka sem hafa átt sér stað í Evrópu á undanförnum misserum, og hvernig þau hafa verið framin, segir Gylfi líklegt að almenningur komi til með að sjá breytingar á lokunum fyrir umferð nærri vegfarendum fljótlega.

„Það má alveg eins búast við því, en við erum að vinna þetta hættumat og skilum því síðan til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem að tekur síðan ákvörðun í framhaldinu ákvörðun um hvaða viðbúnaður þarf að vera til staðar,“ segir Gylfi.

Viðbrögð vegna hugsanlegra hryðjuverka hér á landi hafa verið æfð af lögreglu skipulega síðustu þrjú ár.

„Lögreglan og þá tala ég um lögregluna í heild sinni og greiningardeild ríkislögreglustjóra að við búum ekki yfir upplýsingum þess efnis að hér sé í undirbúningi ódæðisverk, en það má geta þess að þessi heimur, hryðjuverkaheimur, er síbreytilegur og hraður,“ segir Gylfi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×