Innlent

Drengur á grunnskólaaldri stórslasaður eftir að dekk losnaði undan reiðhjóli

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Myndin er ekki tekin af slysstað.
Myndin er ekki tekin af slysstað. Vísir/Anton Brink
Sonur Katrínar Rafnsdóttur, sem búsett er í Mosfelllsbæ, varð fyrir því óláni að detta af hjólinu sínu og slasast mikið í andliti. Ástæðuna fyrir slysinu telur Katrín vera að einhver í hverfinu, jafnvel börn og unglingar, séu farin að taka upp á því að losa dekk af hjólum sem gerir það að verkum að slys geti orðið. Hún birti færslu inn á Facebookhópnum Íbúar í Mosfellssbæ - Umræðuvettvangur og biður foreldra að ræða við börn sín ef ske kynni að þau væru að stunda þetta.
Hér má sjá færslu Katrínar.Vísir/Skjáskot
„Ég frétti þetta bara í morgun. Ég hafði ekki hugmynd um þetta en maðurinn sem hjálpaði stráknum mínum í morgun sagði mér að þetta sé eitthvað í gangi hérna í Lágafellsskóla,“ segir Katrín og bendir á að krökkunum finnist þetta kannski vera fyndinn og sniðugur hrekkur. Dekkið á hjólinu er þá losað frá festingunni. Að sögn Katrínar er hjólið nýtt og útskýrir hún að drengnum hafi ekki grunað að dekkið væri laust frá.

Mikið slasaður

„Hann fer alltaf á hjólinu í skólann og gleymdi hjólinu þarna í einhvern einn dag. Svo er hann ekkert á hjólinu um helgina þar sem við vorum út úr bænum, “ segir Katrín. Slysið átti sér svo stað í morgun þegar drengurinn fór á hjólinu í skólann. Þegar hann fór yfir hraðahindrun þá gaf hjólið sig og dekkið datt undan. Að sögn Katrínar er drengurinn mikið slasaður.

„Þetta er stórhættulegt. Börn átta sig ekki á því hvað þau eru að gera. Þetta er einhver hrekkur sem þeim finnst vera voða sniðugur. Þetta er dýrkeypt en ég er heppinn að hann var með hjálm af því að hann er mjög slasaður í andlitinu. Ég veit ekki hvernig þetta hefði farið ef hann hefði ekki verið með hjálminn, “ segir Katrín og segir að heilsan sé ekki góð. Andlitið hafi komið illa út úr slysinu.

Höfðu ekkert heyrt

„Við erum með öryggismyndavélar hérna úti og þess vegna er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að vita af því ef að eitthvað svona gerist hér á lóðinni þannig að við getum skoðað upptökur,“ segir Jóhanna Magnúsdóttir, skólastjóri Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Ekki sé þó hægt að staðfesta að nemendur í skólanum standi að baki hrekknum enda gæti það verið hver sem er.

„Ég heyrði fyrst af þessu í morgun þegar ég hitti móður drengsins,“ segir Jóhanna og segir að þeim hafi ekki borist tilkynningar um þess konar hrekki til eyrna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×