Innlent

Lamb festist í minkaboga: "Þetta er stórhættulegt, bæði fyrir skepnur og börn“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Lambið var lærbrotið og þurfti að lóga því.
Lambið var lærbrotið og þurfti að lóga því. Guðmundur Halldórsson
„Þessar gildrur eru yfirleitt faldar þannig að maður sjái þær ekki neitt. Oft settar meðfram árbökkum eða lækjarbökkum þar sem féð gengur nú yfirleitt mikið. Þetta er stórhættulegt, bæði fyrir skepnur og börn. Það er auðvelt að stíga í þetta eða reka hendurnar í þetta,“ segir Guðmundur Halldórsson, bóndi á Svarthamri í Súðavík. Hann fann á dögunum að finna lamb á einkalandi sínu sem hafði fest sig í minkaboga. Lambið var lærbrotið og þurfti að lóga því undir eins.

„Ég var látin vita að lambið væri fast í girðingu en það var ekki þannig. Það var fast í minkagildru,“ segir Guðmundur. Hann nefnir að hann hafi veitt strákum leyfi til að veiða minka á landinu hans á veturna en hann hafi ekki vitað að þeir notuðust við þess konar gildru.

„Ég veit nokkurn veginn hverjir þetta eru eða ég tel mig vita það. Það voru þeir sem báðu um þessi leyfi á sínum tíma,“ segir Guðmundur og segist ætla að bíða hvort þeir gefi sig fram áður en hann hafi samband við þá. Guðmundur segist ekki ætla að leita til lögreglunnar að svo stöddu og ætlar að gefa drengjunum nokkra daga í viðbót til að biðjast afsökunar og greiða kostnaðinn áður en lögreglunni verður blandað í málið. Fjárhagslegt tap Guðmundar er á bilinu 10-12 þúsund krónur.

Engar reglur

Minkabogar eru ekki ólöglegir og notast sumir hverjir enn við þá við minkaveiðar. Samkvæmt svari frá Birni Þorlákssyni, upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar, er þó nauðsynlegt að kunna vel til verka þegar fótbogar sem þessir eru notaðir. Ef húsdýr sé nálægt þurfi að byrgja bogana vel.

„Í raun eru engar reglur um notkun fótboga. Þeir voru til langs tíma algengasta verkfærið við veiða á mink, en önnur og nútímalegri tæki eru komin til sögunnar sem aflífa minkinn með skjótvirkari hætti en var. Minkurinn er framandi og ágeng dýrategund hér á landi og af þeim sökum hafa gilt aðrar reglur um veiðar á honum en öðrum dýrum,“ segir Björn og áréttar að fremur sjaldgæft sé að lömb rati í gildrur sem þessar.

Hallgerður Hauksdóttir.

Minkar fá verri meðferð

Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands, segir notkun á minkabogum algjörlega ótæka. Hallgerður segir allt aðrar reglur gilda um minka heldur en önnur dýr og velferð þeirra. Hún nefnir að lögin þurfi að endurskoða.

„Það er sérstakt ákvæði í lögum um dýravelferð sem bannar að drekkja dýrum nema minnkum. Þetta er eingöngu til að spara peninga. Það er algjörlega ótækt að við skulum taka dýrategund út fyrir sviga dýravelferðar, byggt á okkar áliti á því.“ Hún nefnir þó að þau hjá Dýraverndarsambandinu setji sig ekki upp á móti veiðum á minkum heldur aðeins þeim aðferðum sem notaðar séu. Fólk veit almennt ekki af því að svona sé komið fyrir minkunum.

„Lambið ýtir meira við fólki. Við skiljum þetta betur ef heimilsköttur eða gæludýr hefði farið í gildruna,“ segir Hallgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×