Innlent

Þjónusta við leiði í kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma verður skert

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Þjónusta við leiði í Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma verður skert í sumar.
Þjónusta við leiði í Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma verður skert í sumar. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Þjónusta við leiði í kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma verður skert fáist ekki frekari fjárframlög frá hinu opinbera. Helmingi færri starfsmenn verða ráðnir til starfa í sumar miðað við árið tvö þúsund og átta.

Í Fréttablaðinu á föstudag birtist tilkynning frá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastdæma þar sem boðuð er skert þjónusta í sumar en ástæðan eru skert fjárframlög frá hinu opinbera.

Á undanförnum árum hafa á annað hundrað ungmenni hjálpað til við garðyrkjustörf í kirkjugörðunum yfir sumartímann. Þar hefur garðsláttur og umhirða verið stór þáttur. Ljóst er að skerða þarf þá þjónustu svo um munar.

Forstjóri Kirkjugarðanna segir tilkynninguna ákall til stjórnvalda um hversu alvarlegt ástandið er.

„Og annars vegar þá er það krafa starfsmanna Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma að almenningi sé ljós sú staðreynd að það eru ekki þeir sem eru að slugsa heldur eru það stjórnvöld sem að auka ekki framlagið eins og þörf er á,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Árið 2005 var undirritað samkomulag á milli ríkisins og kirkjugarðaráðs um fjárveitingar til kirkjugarða en samkomulagið byggði á gjaldalíkani sem var tæki til að nálgast raunverulega þörf garðanna til lögbundins rekstur.Þórsteinn segir að unnið hafi verið eftir samkomulaginu fyrstu þrjú árin en eftir efnahagshrunið 2008 hafi annara veruleiki tekið við. 400 milljónir vantar til þess að gjaldalíkanið, sem unnið var eftir fyrir kirkjugarðana á öllu landinu virki rétt. 

Sú staðreynd að ekki verði hægt að ráða fleira fólk til starfa í sumar komi til með að bitna á umhirðu garðanna.

„Þeir þjónustuþættir sem almenningur hefur haft, þeir falla niður. Við tökum ruslafötur úr görðunum til þess að létta á með þessum fáu starfsmönnum sem eru ráðnir. Árið 2008 réðum við hundrað og sextíu sumarstarfsmenn en í sumar eru þeir áttatíu," segir Þórsteinn.

Þórsteinn segir fátt um svör varðandi frekara fjárframlag frá hinu opinbera.

„Það liggja fyrir erindi sem ekki hefur verið svarað. Við höfum verið á fundum þar og svörin eru svona óbeinlínis þau að það verði ekki um neina leiðréttingar að ræða. Ekki á yfirstandandi ári. Ekki á næsta ári og ekki í sjónmáli á þessari fimm ára ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×