Innlent

„Þetta er eins og ég hef oft lýst. Þetta er eins og púðurtunna“

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar hefur áhyggur af sumarhúsabyggðum.
Slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar hefur áhyggur af sumarhúsabyggðum. Vísir/Arnar Halldórsson
Mikið tjón varð þegar sumarbústaður í Dagverðarnesi í Skorradal brann til kaldra kola í gær og ekki mátti miklu muna að illa færi vegna gróðurs á svæðinu. Slökkviliðsstjórinn í Borgarbyggð lýsir svæðinu sem púðurtunnu.

Eldsins varð vart um kvöldmatarleitið í gærkvöldi og var allt tiltækt lið slökkvilið Borgarbyggðar í Borgarnesi sent á vettvang og segir slökkviliðsstjórinn að litlu sem engu af eigum hafi verið hægt að bjarga.

„Húsið var orðið alelda, nánast alveg og hafði borist í gróður þegar fyrsta bíll kemur og þá einbeittu menn sér að því að hefta útbreiðsluna og snéru sér síðan að því að slökkva í húsinu. Þetta er altjón,“ segir Bjarni K. Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar.

Bruninn í gær er sá þriðji á svæðinu sem rekja má til rafmagnshitapotta sem að standa við bústaðina. ‚I jafn mörg skipti vildi það til happs að veður var gott og vindátt hagstæð. Ef svo hefði ekki verið er ljóst að illa hefði getað farið á svæðinu öllu.

Mesta hættan á svæði sem þessu er ef gróður en þurr því ef eldur kemst í hann getur hann breiðst hratt út. Eftir brunann í gær hafa vangaveltur verið uppi hvort flutningslínan fyrir rafmagn á svæðið gæti verið of lítil og því valdið skammhlaupi í rafmagnstækjum þegar mörg tæki eru í notkun á saman tíma. Þrír brunar í rafmagnspottum á sama svæði veri að teljast óvenjulegt.

„Ég veit það ekki en það var hérna um daginn flökt á rafmagni og rafmagnslaust hérna í Borgarnesi og Skorradal. Ég veit ekki hvort að það er orsakavaldur,“ segir Bjarni.

Drög að viðbragðsáætlun vegna gróðurelda í Skorradal hefur verið gefin út af Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra en hún hefur enn ekki verið staðfest.

„Þetta er eins og ég hef oft lýst. Þetta er eins og púðurtunna, sérstaklega á vorin, bara út af gróðri,“ segir Bjarni.

Viðbragðsáætlanir hafa ekki verið unnar fyrir önnur sumarhúsasvæði á landinu þrátt fyrir að mörg þessara húsa séu næstum annað heimili fólks. Bjarni segir aðra slökkviliðsstjóra hafa lýst áhyggjum sínum ef upp kæmi bruni í sumarhúsabyggð á þeirra svæði þar sem gróður er þéttur.

„Já, ég er búinn að hafa gríðarlegar áhyggjur af þessu og þetta er orðið þannig að ég held að menn þurfi að fara að huga að gera eitthvað róttækt í þessum málum. Með aukinn gróður og þykkari gróðurþekja, þetta kallar bara á meiri eld og eldhættu. Slökkviliðin eru mörg hver vanbúin og fjársvelt en eiga að fást við þetta,“ segir Bjarni.


Tengdar fréttir

Sumarhús brann í Skorradal

Sumarhúsið stóð í Dagvarðarneslandi en grunur beinist að því að rafknúinn, heitur pottur hafi valdið brunanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×