Innlent

Fimmtán prósent áhugasamra stúdenta komast að í lækninum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vænta má að töluvert margir MR-ingar séu á meðal þeirra 311 sem ætla að þreyta prófið. Myndin er frá dimmisjón á dögunum.
Vænta má að töluvert margir MR-ingar séu á meðal þeirra 311 sem ætla að þreyta prófið. Myndin er frá dimmisjón á dögunum. Vísir/Ernir
311 stúdentar munu þreyta inntökupróf í læknisfræði við Háskóla Íslands í næstu viku. 48 pláss eru í boði. Um er að ræða fjórðungsaukningu í skráningu á milli ára en 246 tóku prófið í fyrra sem var um tíu prósent aukning frá árunum tveimur á undan.

Prófið fer fram á fimmtudag og föstudag í næstu viku en á sama tíma keppast 56 stúdentar um að komast í nám í sjúkraþjálfun þar sem 35 sæti eru í boði. Undanfarin ár hafa um fimmtíu stúdentar þreytt inntökuprófið í sjúkraþjálfun.

Fjöldi nemenda sem fær inngöngu miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun nemenda. Skráningu lauk þann 20. maí en próftökugjald er tuttugu þúsund krónur.

Prófin taka tvo daga og samanstanda af fjórum tveggja tíma próflotum og A-prófi (aðgangsprófi fyrir háskólastig) sem tekur þrjár og hálfa klukkustund. A-prófið gildir 30 prósent af heildinni. Prófin fara fram í húsakynnum Menntaskólans við Hamrahlíð.

Þeir sem þreyta prófin en komast ekki inn eiga þess kost að skrá sig í aðrar deildir HÍ til 20. júlí.

Inntökupróf í læknisfræði hafa farið fram síðan sumarið 2003 en þau tóku við af samkeppnisprófum, numerus clausus, sem nemendur þreyttu í lok fyrsta haustmisseris.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×