Innlent

Átta mánaða fangelsi fyrir veita manni „gapandi skurð“ á Flúðum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tjaldstæðið á Flúðum.
Tjaldstæðið á Flúðum. Vísir/Vilhelm
Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í 8 mánaða fangelsi fyrir „sérstaklega hættulega líkamsárás“ á Flúðum árið 2014. Maðurinn, sem er um þrítugt, var dæmdur fyrir að skera karlmann með dúkahnífi í hægri kálfavöðvann, með þeim afleiðingum að hann hlaut 30 sentimetra langan og gapandi skurð á fótleggnum sem sauma þurfti saman með 34 sporum.

Árásin átti sér stað fyrir utan veitingastaðinn Útlagann á Flúðum og er rakin til ósættis mannanna vegna afskipta árásarmannsins af vinkonum þolandans.

Vísir greindi frá því á sínum tíma að lögreglu hafi borist tilkynning um líkamsárás á veitingastaðnum Útlaganum á Flúðum klukkan 02:05 aðfaranótt laugardagsins 2. ágúst 2014.

Á vettvangi afhenti dyravörður veitingastaðarins lögreglu lítinn hringlaga dúkahníf og vísaði lögreglu á karlmann. Í frumskýrslu lögreglu segir að nokkuð af blóði hafi verið á framanverðum gallabuxum mannsins, einkum á framanverðum lærum. Þá hafi blóð einnig verið sjáanlegt á skóm og nokkrir dökkleitir blettir hafi verið framan á bol hnífamannsins, sem einnig var blóðugur á höndum.

Sjá einnig: Maður skorinn illa með dúkahníf á Flúðum

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og bar við minnisleysi vegna ölvunar. „Hins vegar staðfesti ákærði fyrir dómi að hann hafi játað sök á vettvangi, nánar til tekið að hafa verið með dúkahnífinn og að hafa beitt honum í átökum. Aðspurður um ástæðu þess að hann neiti nú sök kvaðst ákærði hafa verið í áfalli og því getað játað hverju sem var,“ segir í dómnum.

Maðurinn sagðist muna fátt að öðru leyti en að tveir strákar, sem hann hafi ekki þekkt, hafi komið að honum og þeir farið að rífast. Að sögn vitna hafi ósættið komið til vegna „ætlaðra afskipta ákærða af stúlkum sem í kjölfarið hafi leitað til brotaþola og vina hans á dansleiknum,“ eins og það er orðað.

Rætt hafi verið um „runna“, en eftir það bresti minni mannsins, allt hafi orðið svart og hann rankað við sér sitjandi á stól inni á veitingastaðnum. Hins vegar gat maðurinn ekki gert grein fyrir því hvernig hann hafi komist þangað.

Slasaði sjálfan sig

Taldi hann sig hafa misst meðvitund við högg sem hann hafi fengið annað hvort í andlit eða hnakka. Þegar hann hafi rankað við sér hafi hann séð skurð á vinstri hendi sinni, þvert yfir úlnlið.

Í læknisvottorði kemur fram að saumuð hafi verið 24 spor í vinstri úlnlið mannsins og hafi skurðurinn verið um 12-14 sentimetra langur og hálfs til eins sentimetra djúpur. Er skurðurinn rakinn til hnífsins sem hann var með á sér. 

Þegar hann hafði náð áttum segist maðurinn hafa sé bráðaliða hlaupa framhjá á leið á útisvæðið og hafi nærstaddir rætt um að einhver væri illa slasaður.

Kvaðst maðurinn þá hafa tekið upp lyklakippuna, sem dúkahnífur hafi verið festur við, og hafi hnífurinn verið útataður í blóði. Því hafi hann dregið þá ályktun að hann hafi verið þar að verki. Við það hafi hann farið í hálfgert lost og kallað í dyravörð og afhent honum hnífinn. Staðfesti maðurinn þá að hafa haft dúkahníf með sér á dansleikinn en hnífinn hafi hann notað til að opna kassa í vinnunni.

Lengi að átta sig á því sem gerðist

Þolandinn sagði fyrir dómi að í slagsmálunum hafi hnífamaðurinn ýtt í bringu hans og hafi hann þá kýlt til baka krepptum hnefa. „Við það hafi ákærði fallið í jörðina. Kvaðst brotaþoli hafa gripið í jakka ákærða sem þá hafi gripið í fót sinn og skorið í gegnum gallabuxur sem brotaþoli hafi klæðst, en allt þetta hafi tekið stutta stund. Kvaðst brotaþoli ekki hafa séð hvað ákærði hafi verið með í hendi og hafi það tekið hann nokkurn tíma að átta sig á hvað gerst hefði. “

Hnífamaðurinn hlaut sem fyrr segir 8 mánaða fangelsisdóm sem þó er skilorðsbundinn vegna tafa á meðferð málsins af hálfu lögreglunnar og ákæruvaldsins. Þá var honum gert að greiða þolandanum 500 þúsund krónur og standa straum af öllum sakarkostnaði.

Mynd af skurði þolandans má sjá hér að neðan

Fótleggur þolandans eftir árásina.vísir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×