Innlent

Frávísun lögreglustjóra felld úr gildi af saksóknara

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Mikið magn regnbogasilungs slapp úr eldisstöð fyrr á árinu.
Mikið magn regnbogasilungs slapp úr eldisstöð fyrr á árinu. Vísir/GVA
Ríkissaksóknari hefur fellt úr gildi þá ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum að vísa frá kæru Landssambands veiðifélaga vegna sleppingar regnbogasilungs á Vestfjörðum. Skal lögreglustjórinn taka málið til nýrrar meðferðar.

Með bréfi landssambandsins til lögreglustjórans þann 11. janúar síðastliðinn var farið fram á opinbera rannsókn vegna ætlaðra sleppinga á regnbogasilungi úr fiskeldiskvíum. Í bréfinu kom meðal annars fram að regnbogasilungur hefði komið víða fram í veiðum um norðan- og vestanvert landið og meðal annars veiðst í ám við Húnaflóa og Faxaflóa. Taldi sambandið hafið yfir allan vafa að mikið magn regnbogasilungs hefði sloppið úr eldisstöð á þessu ári. Í ljósi þess magns sem um ræddi væri ljóst að silungurinn hefði strokið úr sjókvía­eldi. Lögreglustjórinn vísaði málinu hins vegar frá meðal annars af þeim sökum að Matvælastofnun væri með málið til meðferðar.

Sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara sem hefur nú fellt hana úr gildi. Ríkissaksóknari bendir á að af rökstuðningi lögreglustjóra verði ráðið að ekki hafi farið fram sérstök athugun eða verið leitað eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um hvort kæran geti átt við rök að styðjast. Að mati ríkissaksóknara hefði verið rétt af lögreglustjóra að fara betur ofan í saumana á kæruefninu áður en ákvörðun var tekin um að vísa kærunni frá. Rétt hefði verið að leita eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um meintar slysasleppingar, þar með talið að staðreyna hvort eftirlit eða athugun stofnunarinnar hafi farið fram eða væri yfirvofandi eða yfirstandandi og hvað hafi komið fram við þá athugun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×