Erlent

Vilja verða 51. stjarnan á þjóðfána Bandaríkjanna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ricardo Rossello fagnaði innilega þegar úrslitin lágu fyrir.
Ricardo Rossello fagnaði innilega þegar úrslitin lágu fyrir. vísir/epa
Íbúar Púertó Ríkó samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu um helgina að falast eftir því að verða 51. ríki Bandaríkjanna. Leiðin þangað er hins vegar ekki auðveld en bandaríska þingið þarf að samþykkja tillögu þess efnis.

Efnahagsástandið á eyjunni hefur verið ömurlegt að undanförnu. Skuldir eyjaskeggja eru um 70 milljarðar dollara, andvirði um sjö billjóna íslenskra króna, og tæplega annar hver íbúi er undir fátæktarmörkum. Sökum þessa er starfsemi skóla og sjúkrahúsa ekki líkt og best verður á kosið. Af þeim sökum er talið ólíklegt að bandaríska þingið muni taka vel í að innlima Púerto Ríkó í landið.

Af þeim sem greiddu atkvæði á sunnudag vildu 97 prósent verða ríki innan Bandaríkjanna. Kosningaþátttaka var hins vegar dræm en aðeins tæpur fjórðungur sá sér fært að mæta á kjörstað. Þetta er í fimmta sinn frá árinu 1967 sem slík atkvæðagreiðsla fer fram.

„Frá og með deginum í dag getur alríkisstjórnin ekki haldið áfram að hunsa raddir meirihluta amerískra íbúa Púertó Ríkó,“ segir í yfirlýsingu frá Ricardo Rossello, landstjóra Puertó Ríkó. „Það væri mikil hræsni ef Washington, sem kallar ítrekað eftir því að önnur ríki heimsins virði lýðræði, hlustaði ekki á vilja bandaríska sambandssvæðisins Púertó Ríkó.“

Sú staðreynd að Karíbahafseyjan er sambandssvæði en ekki ríki er talin stór þáttur í slæmu efnahagsástandi landsins ásamt óábyrgri efnahagsstjórn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×