Innlent

Eigandi gullhringsins í laukhýðispottinum fundinn

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Guðrún Bjarnadóttir og Guðrún Gestsdóttir glaðar í bragði eftir fund ársins.
Guðrún Bjarnadóttir og Guðrún Gestsdóttir glaðar í bragði eftir fund ársins. Guðrún Bjarnadóttir
Guðrún Bjarnadóttir, jurtalitari og kennari í grasafræði, fann gullhring á dögunum í laukhýðispotti og auglýsti eftir eigandanum með hjálp samfélagsmiðla. Inn í hringnum er áletrað nafnið Sveinn.

Máttur samfélagsmiðlanna er greinilega mikill þar sem eigandinn er nú fundinn. Eigandinn er Guðrún Gestsdóttir frá Eskiholti í Borgarfirði og er hún gift umræddum Sveini Finnssyni bónda í Eskiholti. Guðrún sjálf sá auglýsinguna um hringinn á Facebook og taldi sig kannast við hann.

Guðrún og Sveinn hafa verið gift í 50 ár og því var gleðin í hámarki þegar hringurinn komst í réttar hendur. Hringnum hafði Guðrún týnt þegar hún var með dóttur sinni í verslunarferð í Nettó í Borgarnesi fyrr í vetur. Þegar heim var komið vissi hún ekki hvar hún hefði týnt hringnum.

Dóttir hennar hafði verið í heimsókn í Hespuhúsinu nokkru áður en Guðrún fann hringinn í pottinum og einmitt litið ofan í laukhýðispottinn af einskærri forvitni en hafði þá ekki vitað að þar reyndist í raun giftingahringur móður hennar. Það áttu þá etir að líða nokkrir dagar þar til Guðrún sjálf fengi fregnir um týnda hringinn.

„Það er dásamlegt að lenda í svona ævintýri sem endar vel og ég vil þakka öllum sem deildu færslunni og þeim netmiðlum sem fjölluðu um málið“ segir Guðrún í Hespuhúsinu. 



Guðrún Gestsdóttir fékk svo stöku bandhespuna sem var í laukhýðispottinum að gjöf með hringnum að lokum.


Tengdar fréttir

Fann giftingarhring í laukhýðispotti

"Það væri svo dásamlegt að geta komið honum til skila,“ segir Guðrún Bjarnadóttir um giftingarhring sem hún fann í laukhýðispottinum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×