Innlent

Fann giftingarhring í laukhýðispotti

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Eiganda hringsins er leitað.
Eiganda hringsins er leitað. Guðrún Bjarnadóttir
„Það væri svo dásamlegt að geta komið honum til skila,“ segir Guðrún Bjarnadóttir um giftingarhring sem hún fann í laukhýðispottinum sínum.

Guðrún, kennari í grasafræði, var við störf á jurtalitunarvinnustofunni sinni, Hespuhúsinu, þegar hún kom auga á hringinn. Inni í giftingarhringnum stendur nafnið Sveinn. Guðrún lýsir því hvernig hún sýður jurtir og síar þær frá og færir ullina ofan í til litunar. Þá stundina sem hún fann hringinn notaðist hún við laukhýði til þess að lita ullina.

„Ég var semsagt að nota laukhýðið við litun sem er safnað fyrir mig í Nettó í Borgarnesi. Þegar ég ætla að fara að sía jurtirnar frá vatninu þá bara allt í einu er þessi hringur þarna. Hann er náttúrulega þungur þannig að hann hefur verið á botninum á pottinum. Það var bara heppni að ég tók eftir honum því hann var svo samlitur,“ segir Guðrún furðulostin.

Hún telur að þetta sé hringur sem einhver hefur misst við að kaupa lauk í Nettó í Borgarnesi einhvern tíman á síðasta ári. Guðrún safnar laukunum þangað til henni dettur síðan í hug að notast við þá svo hún er ekki alveg viss hvenær eigandinn hefur glatað hringnum. „Ég veit ekki hvort þetta sé laukur sem ég fékk í síðustu viku eða fyrir ári síðan.“



Innan í giftingarhringnum stendur nafnið Sveinn.Guðrún Bjarnadóttir
Þrautaganga hringsins

Guðrún segist vanalega malla jurtir í mesta lagi í þrjá tíma en í þetta skiptið hafi hún misst stjórn á pottinum og segist hún hafa látið pottinn malla pínulítið í fimm heila daga.

Hann hefur þannig lifað af fimm daga í pottinum?

„Já, á suðu! Hann er voðalega fínn og glasandi,“ segir Guðrún og hlær.

Guðrún vonast til þess að eigandinn finnist. Þeir sem telja sig vita hver eigandinn er eru vinsamlegast beðnir um að hringja í síma Guðrúnar: 865-2910.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×