Innlent

Syndir hringinn í kringum Ísland: Jón Eggert mun ekki sitja auðum höndum næstu sex sumur

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Jón Eggert kallar ekki allt ömmu sína og syndir nú hringinn í kringum landið til styrktar Krabbameinsfélaginu.
Jón Eggert kallar ekki allt ömmu sína og syndir nú hringinn í kringum landið til styrktar Krabbameinsfélaginu. Pamela Perez
Jón Eggert Guðmundsson, sundkappi, hefur nóg fyrir stafni næstu sex sumur en hann ætlar sér að synda hringinn í kringum Ísland til styrktar Krabbameinsfélaginu. Jón Eggert hefur nú þegar hjólað íslensku strandlengjuna í fyrra og árið 2006 gekk hann, fyrstu Íslendinga, 3446 km eða lengsta hringinn í kringum Ísland.

Jón Eggert hefur er lagður af stað en hann er vitaskuld bundinn veðri og vindum og getur því ekki synt á hverjum degi. Hann er nú þegar búinn að synda 150 km. Hann syndir 200 til 300 km á hverju sumri.

„Sundið er öðruvísi en hjólið og gangan af því ég er háður veðri dálítið. Þannig ég tek þetta ekki í beinni línu. Ég er búinn með meirihlutann af höfuðborgarsvæðinu. Ég er búinn með Kjalarnes og Hvalfjörð, Akranes og byrjaði aðeins á Mýrunum en þær eru svolítið erfiðar, þannig ég tók pínulítið af þeim. Síðan tók ég norðurhlutann af Snæfellsnesi,“ segir Jón Eggert í samtali við Vísi.

Jón Eggert er vanur sundmaður og keppti í sundi á sínum yngri árum.

„Ég er betri sundmaður heldur en hjólamaður eða göngumaður,“ segir Jón Eggert.

Á laugardaginn klukkan níu ætlar hann að synda frá gömlu sundlauginni í Hafnarfirði og ætlar að synda út Reykjanes ef veður leyfi. Siglingaklúbburinn Þytur mun fylgja honum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×