Innlent

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti erlendan göngumann í sjálfheldu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar sinnti fjölbreyttum útköllum í dag. Myndin er úr safni.
TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar sinnti fjölbreyttum útköllum í dag. Myndin er úr safni.
Um kvöldmatarleytið í kvöld óskaði lögreglan á Suðurlandi eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar til að grennslast fyrir um erlendan göngumann sem ætlaði að ganga yfir Fimmvörðuháls, en hefur ekki skilað sér á áfangastað samkvæmt ferðaáætlun. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, var send á svæðið og mun hún reyna að miða út GSM síma mannsins með sérstökum miðunarbúnaði.

Um var að ræða þriðja útkallið sem TF-LÍF sinnir í dag. Um klukkan fjögur, þegar þyrlan var að ljúka verkefni á Vestfjörðum, var óskað eftir aðstoð hennar vegna erlends göngumanns sem var í sjálfheldu á gönguleiðinni milli Keflavíkur og Rauðasands, austan Látrabjargs. Þyrlan hélt þegar á vettvang, auk lögreglu og björgunarsveita. Fann þyrlan manninn þar sem hann var í miklum bratta og komst hvergi. Var maðurinn hífður upp í þyrluna sem flutti hann til lögreglu og björgunarsveita. Var hann ómeiddur.

Meðan þyrlan sinnti björgun göngumannsins barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beiðni um sjúkraflug á Drangsnes og hélt þyrlan þegar þangað að björgun lokinni. Um klukkan 18:30 lenti þyrlan á Drangsnesi þar sem sjúklingur var tekinn um borð. Laust eftir klukkan 19 lenti þyrlan svo með sjúklinginn á Reykjavíkurflugvelli, þaðan sem hann var fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann.

Þá hefur þyrlan sinnt öðrum verkefnum í dag.. Fyrir hádegi var flogið með björgunarsveitarmenn frá Akranesi upp á Skarðsheiði til að sinna viðhaldi á fjarskiptaendurvarpa björgunarsveitanna, en endurvarpinn er mikilvægur til að tryggja samskipti björgunaraðila við leit og björgun á Vesturlandi. Í framhaldi af því var svo flogið með tæknimenn Neyðarlínunnar vestur á Straumnesfjall til viðgerða á tæknibúnaði fyrir AIS ferilvöktunarkerfi skipa, en AIS kerfið er mikilvægur hlekkur í öryggismálum sjófarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×