Innlent

Hleypur fyrir lífið

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðmundur Daði stígur fram með einföld skilaboð: Útmeð'a!
Guðmundur Daði stígur fram með einföld skilaboð: Útmeð'a! Guðmundur Daði
Guðmundur Daði Guðlaugsson var eitt sinn svo langt leiddur af þunglyndi að hann hugleiddi sjálfsvíg nokkrum sinnum. Hann hleypur fyrir forvarnarverkefnið Útmeð‘a í Reykjavíkurmaraþoninu.

Geðhjálp og Hjálparsími Rauða krossins standa sameiginlega að Útmeð‘a sem stuðlar að bættri geðheilsu meðal almennings með því að hvetja fólk til að tjá sig um andlega líðan sína.

Spurður að því hvers vegna þetta málefni hafi orðið fyrir valinu segist Guðmundur sjálfur hafa glímt við sjálfsvígshugsanir nokkrum sinnum. „Sem betur fer varð ekkert úr því,“ segir Guðmundur. Hann segir einnig að hann komi frá litlum bæ úti á landi þar sem sjálfsvígstíðni sé há. Þá segir Guðmundur að sjálfsvígstíðni meðal ungra karlmanna sé há yfir höfuð.

Upphafið að þunglyndi Guðmundar má rekja til grunnskólagöngu hans. „Ég var alltaf sá krakki sem var með lítið hjarta og öll stríðni gagnvart mér endaði yfirleitt með gráti og gerði mig að auðveldu skotmarki,“ segir Guðmundur. Hann segir þetta hafa gert sig að auðveldu skotmarki. „Þetta einelti gerði það að verkum að ég einangraðist mikið.“ Einangrunin hafi leitt til félagsfælni, kvíða og síðar þunglyndis.

Hann byrgði vanlíðanina inn í sér. Það kom hans nánustu á óvart þegar þeim varð ljóst hversu illa Guðmundi leið. 

„Ég fór nokkrum sinnum út og fékk mér rúnt með það að markmiði að ljúka þessu af en ég held að það sem hafi stoppað mig var sú staðreynd að ég hef alltaf verið mjög hræddur við að deyja, þó svo ég hafi viljað það á nokkrum tímapunktum í lífi mínu,“ segir Guðmundur. Hann segir alla rökhugsun hverfa þegar fólk sé í þessu ástandi. Það er Guðmundi minnisstæður atburður í lífi hans þegar hann ákvað að opna sig og leita sér aðstoðar. Hann leitaði til sálfræðings í apríl árið 2015 og fékk aðstoðina sem hann þurfti á að halda.

Guðmundur brýnir fyrir fólki mikilvægi þess að tala um andlega líðan. Hann segir að hann hafi fundið fyrir gífurlegum létti þegar hann opnaði sig loksins eftir öll þessi ár. Hann segir það vera hættulegt að byrgja tilfinningar inni. „Ég vil að allir komi hreint út og segi sínum nánustu hvernig þeim líði, sama hvort þeim líði vel eða illa, þá er alltaf gott að tjá tilfinningar. Þú verður ekki aumingi þó svo að þú segir frá þeim,“ segir Guðmundur.

Guðmundur hefur áhyggjur af skaðlegum karlmennskuhugmyndum í þessu sambandi og furðar sig á því hvers vegna sumum karlmönnum finnist aumingjalegt eða væmið að tjá tilfinningar sínar. „Við þrífumst öll á ást, við viljum vera elskuð og elskaðir,“ segir Guðmundur sem bætir við:

„Við eigum, sem manneskjur, að tjá okkur um okkar líðan. Er það ekki þess vegna sem við kunnum að tala?“

Guðmundur imprar á því að fólk þurfi ekki að skammast sín fyrir þunglyndi og vanlíðan því þetta sé eins og hver annar sjúkdómur. Hann segir einnig mikilvægt að við vöndum okkur þegar við fjöllum um geðsjúkdóma. Það sé ekki boðlegt að segja þá sem fyrirfara sér sjálfselska. „Þessi hugsun finnst mér vitlaus því sá sem fyrirfer sér er oftast með þá hugsun að gera heiminn betri með því að taka líf sitt því það sé einskis virði og hann sé bara fyrir,“ segir Guðmundur til útskýringar.



Guðmundur segir að það sé fyrsta forvörnin að vera dugleg að tjá tilfinningar og enn fremur að spyrja aðra út í líðan þeirra. „Að í raun og veru koma Útmeð‘a,“ segir Guðmundur. Hann er nú þegar búinn að safna rúmum 62.000 krónum en hann hefur sett sér markmið að ná í það minnsta hundrað þúsund krónum.

Guðmundur segir að peningurinn sé mikilvægur til að geta komið upp auknum forvörnum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Hann segist vilja sjá aukin fjárframlög til málaflokksins frá hinu opinbera.

Hér getur þú lagt Guðmundi lið í baráttunni gegn sjálfsvígum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×